Upp­gjörið: Kefla­vík - Valur 70-81 | Valur vann er meistararnir mættust

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
470798815_10160313742492447_217211629922283059_n
vísir/Anton

Bikarmeistarar Keflavíkur töpuðu með ellefu stigum gegn Íslandsmeisturum Vals í fimmtándu umferð Bónus deildar karla í körfubolta. Bæði lið hafa verið í örlitlu brasi það sem af er móts og vonast til þess að rétta úr kútnum fyrir úrslitakeppnina. Eftir mikinn baráttuleik voru það Valur sem höfðu á endanum betur 70-81 og tóku sinn fjórða sigur í síðustu fimm leikjum.

Það voru Valsmenn sem tóku uppkastið og settu fyrstu stigin á töfluna til þess að koma þessum leik af stað. Það var kraftur í Valsliðinu sem náði í fimm stiga forskot snemma. Það breyttist svo þegar Kári Jónsson fékk sína þriðju villu á jafn mörgum mínútum og Valsmenn kipptu honum á bekkinn.

Keflavík byrjaði þá hægt og rólega að taka til sín völdin og snéru leiknum sér í vil. Hilmar Pétursson var þar fremstur í flokki í endurkomu sinni eftir meiðsli og ljóst að hann hefur saknað þess að spila körfubolta. Keflavík leiddi eftir fyrsta leikhluta 22-16.

Í öðrum leikhluta héldu Keflvíkingar áfram að sýna styrk sinn og voru að hitta vel. Á sama tíma var þetta ekki alveg að falla fyrir Valsliðið. Keflavík náði mest sextán stiga forskoti í öðrum leikhluta áður en það kom smá neisti í Valsliðið. Kristinn Pálsson setti tvo þrista í röð til að kveikja aðeins undir þeim og áttu Valsmenn flottan kafla undir lok leikhlutans þar sem þeir söxuðu niður forskot heimamanna. Það var hins vegar Hilmar Pétursson sem kvaddi fyrri hálfleikinn með því að setja þrist úr horninu fyrir Keflavík þegar tíminn rann út og Keflavík leiddi í hálfleik 44-37.

Það voru mikil jafnræði með liðunum í upphafi seinni hálfleiks og mikil barátta sem einkenndi fyrstu mínúturnar. Útlitið var ekki bjart fyrir Val þegar Hjálmar Stefánsson sótti sína fimmtu villu um miðjan þriðja leikhluta. Það virðist hins vegar hafa þjappað Valsliðinu eitthvað saman því þeir fóru á svakalegt áhlaup og náðu að snúa leiknum sér í hag. Eftir þriðja leikhluta voru það Valsmenn sem voru komnir með forystuna 53-56.

Valur setti sterkan tón í upphafi fjórða leikhluta og setti niður tvo þrista til að búa til gott forskot á Keflavík. Þetta virtist ætla að verða nokkuð þægilegt fyrir Val eftir því sem leið á leikhlutann en Pétur Ingvarsson þjálfari Keflavíkur tók leikhlé þegar rúmlega fjórar mínútur voru eftir og Keflavík náði góðu áhlaupi. Keflavík minnkaði þetta niður í þrjú stig áður en Valsmenn tóku leikhlé og náðu að stöðva blæðinguna.

Leikhlé Valsmanna bar árangur en þeir náðu að bremsa Keflavík vel af og sigldu aftur fram úr og náðu á endum flottum ellefu stiga sigri 70-81.

Atvik leiksins

Þristar frá Kristni Páls í þriðja leikhluta skutu bæði Val fram úr og gaf þeim mómentið til þess að fara með leikinn. Var á tíma óstöðvandi.

Stjörnur og skúrkar

Kristinn Pálsson var frábær í liði Vals í kvöld. Var með 20 stig og þar af sex þristar. Adam Ramstedt var einnig frábær í liði Vals og endaði stigahæstur með 23 stig.

Hjá Keflavík var gaman að sjá Hilmar Pétursson aftur á parketinu. Var öflugur í fyrri hálfleik en dró vel af honum eftir því sem leið á.

Dómarinn

Línan var á tíðum svolítið furðuleg. Bæði lið höfðu stundum eitthvað til síns máls þegar þau kvörtuðu. Ekki frábært en ekkert hræðilegt heldur.

Stemingin og umgjörð

Umgjörðin í Keflavík er ávallt til fyrirmyndar. Mikilvægur leikur hjá handboltalandsliðinu á sama tíma svo við gefum því slaka að færri hefði lagt leið sína á völlinn en raun bar vitni.

„Ánægður með að liðið brotnaði ekki“

Finnur Freyr, þjálfari Vals. Vísir/Pawel

„Þetta var flott frammistaða í fyrri hálfleik og ég var ánægður með að liðið brotnaði ekki þegar Keflvíkingar komust fimmtán stigum yfir um miðjan annars leikhlutar. Ég er bara gríðarlega ánægður með þennan sigur,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson.

„Ég held að ef Keflavík skorar bara 70 stig á heimavelli þá sé það stór lykill. Mér fannst við vera skapa okkur fín færi í fyrri hálfleik og gerðum mikið af klaufalegum varnarmistökum. Um leið og við náum að læra á hvernig Keflavík voru að spila þá fannst mér vörnin bindast saman og svo fórum við að setja skot sem hjálpaði til,“ sagði Finnur Freyr.

Valsmenn lenti snemma í villuvandræðum í leiknum en það kom þó ekki að sök.

„Ég man ekki eftir að leikmaður hafi fengið þrjár villur á fyrstu fjórum mínútum eins og Kári fékk í leiknum en ef maður brýtur af sér þá eru það víst villur. Það var vont að missa Hjálmar út þarna í þriðja leikhluta en sem betur fer er breiddin orðin meiri og við fengum fleiri mínútur út úr Kristófer heldur en að planið var og við tökum bara sigrinum,“ sagði Finnur Freyr.

Valur hefur nú unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum og eru farnir að líkjast sjálfum sér aftur eftir erfiða byrjun á mótinu en Finnur Freyr segir sjálfstraustið samt ekki alveg komið í botn aftur.

„Við erum að sjá svona glimpsur af því. Mér finnst það ekki vera komið svona heilt yfir en það koma svona móment þar sem vélin fer að malla bæði í vörn og sókn. Núna er okkar verkefni að fjölga þeim mómentum og fækka mómentum þar sem við lítum út eins og fimm einstaklingar. Vissulega komnir núna fjórir flottir sigrar í síðustu fimm leikjum. Eins og þessi deild er þá vorum við komnir í djúpa holu og erum að nálgast 50% núna þannig við þurfum að halda áfram núna“ sagði Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Valsmanna.

„Deildin er bara ótrúlega sterk“

Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur. Vísir/Hulda Margrét

„Við vorum ellefu stigum lélegri en þeir. Það var ekkert flóknara en það,“ Sagði Pétur Ingvarsson þjálfari Keflavíkur svekktur eftir tapið í kvöld.

Keflavík voru komnir í flotta stöðu í öðrum leikhluta en misstu leikinn í hendur Vals í síðari hálfleiks.

„Þeir eru bara með hörku gott lið. Þeir láta dómarana hafa fyrir hlutunum og þegar það skiptir máli þá koma þeir upp á topp og vinna leikinn,“ sagði Pétur.

Keflavík komst á gott skrið undir lok fjórða leikhluta og hótaði endurkomu sem varð þó ekki að veruleika. Valur tók leikhlé sem stöðvaði mómentum hjá Keflavík og stoppaði leikinn á hárréttum tíma fyrir gestina.

„Að sjálfsögðu, ef við hefðum hitt þá hefði verið jafnt eða eitt stig þannig gríðarlega öflugt stop hjá þeim. Þeir hittu svo úr þremur þristum eftir það og leikurinn búin,“ sagði Pétur.

Keflavík eru núna í erfiðari stöðu með sjö sigra og átta töp. Pétur horfir þrátt fyrir það í bjartari tíma hjá Keflavík.

„Vonandi bara bjart, það er ekkert annað hægt. Þetta er ekki það sem við stefnum á en við eigum mjög erfiðan leik á móti KR næst og við þurfum að koma tilbúnir í þann leik. Það er einn leikmaður veikur hjá okkur og Hilmar átti ágætis leik framan af. Vonandi kemur hann meira tilbúin í næsta leik og bara áfram gakk,“ Sagði Pétur.

„Ég hef sagt það áður að þetta er ein stekasta deildin á norðurlöndunum og það eru hörku lið í þessari deild. Það er enginn léttur leikur í þessari deild, það eru allir leikir erfiðir. Við spiluðum á móti Haukum í bikarnum hérna um daginn og þeir eru jafn erfiðir og Valur sem eru Íslandsmeistarar og með gríðarlega öflugt lið. Deildin er bara ótrúlega sterk og það er örugglega gaman að fylgjast með þessu. Það er ekkert gaman að tapa sem þjálfari en fyrir áhorfendur þá er þetta örugglega mjög skemmtilegt og áhugavert,“ Sagði Pétur Ingvarsson þjálfari Keflavíkur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira