Skoðun

Auð­mjúkur for­stjóri Isavia tekst á við forðunarhegðun

Skúli Gunnar Sigfússon skrifar

Stjórnendur fyrirtækja verja margir töluverðum tíma, orku og fjármagni í það að styrkja ímynd sína. Þeir láta fagljósmyndara taka góða ljósmynd, kaupa ráðgjöf um hvað skuli segja, hvenær og hvernig – og reyna síðan að koma sér í viðtöl þar sem markmiðið er að segja eitthvað háfleygt og gáfulegt. Mér er til efs að þetta skili einhverjum raunverulegum árangri eða betri rekstartölum, nema hugsanlega betri ímynd stjórnandans sjálfs til skemmri tíma.

Það hefur líklegast verið með þessum hætti sem Sveinbjörn Indriðason, forstjóri ríkisfyrirtækisins Isavia, fór í ítarlegt viðtal á visir.is fyrir tæpu ári. Isavia hefur lengi verið umdeilt fyrir vinnubrögð og harkalega framkomu gagnvart öðrum fyrirtækjum og væntanlega hefur forstjórinn eitthvað viljað hressa upp á ímyndina.

Viðtalið var líkt og gott helgarnámskeið í stjórnunarskóla þar sem rætt var um stefnumótunarvinnu, vinnustaðamenningu, sjálfsþroska, stjórnendastíl og menningarvegferð – mest froða en lítið innihald. Forstjórinn kom því á framfæri í viðtalinu að hann hefði þjáðst af forðunar- og einræðishegðun en ætli að bæta ráð sitt og láta af þeim ósóma.

Auðmýkt Isavia

Í þessu tímamótaviðtali segir Sveinbjörn meðal annars: „Ég man til dæmis eftir því að hafa tekið ákvörðun um að koma fram með ákveðna auðmýkt í fjölmiðlaviðtölum. Því ímynd Isavia var þess eðlis að ég taldi auðmýkt einfaldlega þurfa til þess að endurspegla betur hver við erum í raun sem hér störfum.“

Þetta er fallega sagt og það er alveg ljóst að þær gífurlegu fjárhæðir sem Isavia hefur varið í almannatengslaráðgjöf á liðnum árum eru að skila sér – í það minnsta í orði.

Hvorki Isavia né forstjórinn hafa þó sýnt mikla auðmýkt á liðnum vikum þar sem kallað hefur verið eftir upplýsingum um kostnað vegna þeirrar auglýsingarherferðar sem ríkisfyrirtækið hefur ráðist í. Sem kunnugt er keypti Isavia dýrasta auglýsingapláss sem fyrirfinnst í sjónvarpi hér á landi á gamlárskvöld til að frumsýna nærri tveggja mínútna auglýsingu. Þessu hefur svo verið fylgt eftir með frekari birtingum. Ég var svo barnalegur í fyrri greinum mínum að halda að kostnaðurinn við birtinguna og framleiðslu auglýsingarinnar hlypi á milljónum en fróðir menn úr auglýsingabransanum hafa hlegið að mér og telja að kostnaðurinn hlaupi á fleiri tugum milljóna.

Þegar blaðamaður Vísis óskaði eftir upplýsingum um hvað herferðin hefði kostað skattgreiðendur var svar Isavia stutt og laggott og gjörsamlega laust við alla auðmýkt: „Isavia deilir ekki upplýsingum um fjármál félagsins umfram það sem kemur fram í ársreikningum þess.“ Það lítur út fyrir að ákvörðunin um að koma fram með auðmýkt í fjölmiðlum hafi verið tekin til mjög skamms tíma.

Fyrirtækjum er auðvitað frjálst að ráðast í auglýsingarherferðir til þess að reyna að bæta ímynd sína. Flest fyrirtæki þurfa hins vegar að réttlæta slíkan kostnað fyrir stjórnum og hluthöfum og sjálfsagt eru ýmis dæmi þess að réttlætanlegt sé að verja fjármagni í slíkt hjá einkafyrirtækjum. Opinber fyrirtæki eiga hins vegar að bæta ímynd sína einfaldlega með því að veita framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina sinna. Fáir halda því fram að Isavia hafi gert það.

Aðsend

Raunveruleikinn umvafinn plasti og flugvélar úti á hlaði

Á meðan tugum milljóna er varið í ímyndarherferð fyrir stjórnendur Isavia ferðast stór hluti farþega í rútum til og frá flugvélum sem staðsettar eru lengst úti á flughlaði – næstum einum og hálfum áratug eftir að ferðamannasprengjan hófst á Íslandi í kjölfar hruns íslensku krónunnar og goss í Eyjafjallajökli.

Sjálfsafgreiðslubásar fyrir vegabréfaeftirlit í komusal flugstöðvarinnar eru enn vafðir plasti (sjá mynd hér fyrir neðan sem tekin var í vikunni). Básarnir voru þó ekki notaðir í tveggja mínútna ímyndarauglýsingunni en þess má geta að básarnir eru eldri en fyrrgreint ímyndarviðtal við forstjórann, enda hafa þeir verið í plastaðir þarna í vel á annað ár.

Þegir stjórn Isavia málið í hel?

Stjórn Isavia ber að grípa fram fyrir hendur á forstjóra sem veldur illa starfi sínu. Þegar forstjórinn leggur fram hugmynd til stjórnar um að fara í tugmilljóna ímyndarherferð í íslenskum fjölmiðlum, hefði stjórnin átt að spyrja hvort að ekki lægi til dæmis meira á að klára ýmsar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli, eins og til dæmis fyrrnefnda sjálfsafgreiðslustöðvar í vegabréfaeftirlitinu.

Formaður stjórnar Isavia er Kristján Þór Júlíusson, fv. ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Í stjórninni sitja einnig Jón Steindór Valdimarsson, nýráðinn aðstoðarmaður fjármálaráðherra (sem heldur á eina hlutabréfinu í Isavia), Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, nýkjörinn þingmaður Miðflokksins og Hrólfur Ölvisson, fv. framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins.

Það mætti beina þeirri spurningu til þeirra allra hvort þau séu sátt við að Isavia neiti að svara spurningum fjölmiðla um kostnaðinn við ímyndarherferð ríkisfyrirtækisins. Munu þau sýna skattgreiðendum þá sjálfsögðu kurteisi að svara fyrir þetta? Eða er kannski bara þægilegast að reyna að þegja óþægileg mál í hel og spá frekar í hvort að það verði pönnukökur eða skonsur á næsta stjórnarfundi?

Höfundur er viðskiptavinur og hluthafi í Isavia ohf. líkt og allir Íslendingar.




Skoðun

Sjá meira


×