Yfir 650 miðar seldust á sögufræga blótið í ár þar sem Danssveit Dósa lék fyrir dansi. Venju samkvæmt fór blótið fram í íþróttahúsi Neskaupstaðar en blótið var eins og áður skipulagt af 27 manna þorrablótsnefnd.
Í eina tíð var Neskaupstaður stundum nefndur Litla-Moskva vegna þess að Alþýðubandalagið hafði mjög lengi hreinan meirihluta í bæjarstjórn. Alþýðubandalagið hóf árið 1965 að halda þorrablót og félagsmenn buðu með sér gestum. Haldið hefur verið í nafnið allar götur síðan.
Blótið er íhaldssöm skemmtun þar sem ávallt hefur verið heimatilbúin skemmtidagskrá. Þar er það annállinn sem tekur jafnan um einn og hálfan tíma í flutningi og er lesinn, sunginn, leikinn á sviði og hluti gjarnan á kvikmyndaformi.
Þetta kvöld var gríðarleg stemning í lofti og blótið öðruvísi en öll önnur á landinu, enda veitingar í höndum gestanna sjálfra sem koma í hópum af öllum stærðum og gerðum á blótið og hefur verið þannig allt frá upphafi. Vikurnar fyrir hittist fólk og skipuleggur hvað skal kaupa og hvernig það skal útfært og svo raða hóparnir saman samdægurs í trog og koma svo með tveimur, þremur klukkutímum áður en blótið hefst.





