Innlent

Kennarar funda á ný á morgun

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Inga Rún Ólafsdóttir formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambands Íslands hittast á ný í Karphúsinu á morgun.
Inga Rún Ólafsdóttir formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambands Íslands hittast á ný í Karphúsinu á morgun. Vísir

Ríkissáttasemjari hefur boðað samninganefndir grunn- og leikskólakennara og ríkis og sveitarfélaga á fund á morgun. Formaður samningsnefndar sveitarfélaga segir enn eigi eftir að semja um nokkur atriði en vonar að samningar náist. 

Ríkissáttasemjari boðaði samninganefndir grunn- og leikskólakennara og ríkis og sveitarfélaga til fundar eftir hádegi í morgun. Félagsdómur dæmdi verkföll í ríflega tuttugu grunn- og leikskólum ólögmæt á sunnudag. Á þeim forsendum að þau tækju ekki til allra starfsmanna í viðkomandi stéttarfélagi hjá sama sveitarfélagi. 

Vilja að samkomulag frá 2016 verði virt

Fram hefur komið að kennarar vilja jafna laun milli hins almenna og opinberra vinnumarkaðar. Vísað hefur til samkomulags sem gert var við ríkið árið 2016 um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Þær miðuðu að því að samræma lífeyrisréttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði. Þar kom jafnframt fram að unnið yrði markvisst að því að jafna kjör launafólks á opinberum og almennum vinnumarkaði eins og kostur væri. Kennarar segja að þetta samkomulag hafi ekki verið virt. 

Úr samkomulagi sem gert var við kennara árið 2016.Vísir

Þurfi að leysa nokkur atriði

Inga Rún Ólafsdóttir formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga vonar að ekki komi til frekari verkfalla hjá kennurum.  

„Það er mikið áhyggjuefni að þau grípi til aðgerða að nýju og við höldum í vonina að við náum að semja,“ segir Inga.

Hún segir að leysa þurfi nokkur atriði í kjaradeilunni áður en samningar náist. Aðspurð um hvort pólitík hafi haft afskipti af deilunni þegar kennarar héldu að þeir væru við það að skrifa undir kjarasamning svarar Inga: 

„Ég get ekki tjáð mig um neitt sem aðrir bera ábyrgð á. Við höfum reynt að standa okkar vakt og unnið okkar vinnu. Aðkoma annarra er ekki á okkar ábyrgð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×