Mikil athygli er á Keflavíkurliðinu sem er nú mætt með nýjan þjálfara í lokatilraun til að rétta af gengi þessa rándýra liðs sem situr aðeins í 10. sæti Bónus-deildarinnar, með 14 stig. Haukar eru í botnsætinu með átta stig en geta með sigri í kvöld skapað sér von um að halda sér uppi.
„Fyrir fram heldur maður að Haukarnir séu að tapa en við erum búnir að læra það að þeir gefa alltaf leik,“ sagði Pavel og Helgi tók undir:
„Þeir hafa sýnt það í vetur. Þrátt fyrir að vera í hálfvonlausum stöðum oft á tíðum, þar sem væri auðvelt að leggjast niður og gefast upp, þá býr eitthvað stolt í þessu liði og þjálfarateyminu. Þeir gefa allt sitt í leikina og svo annað hvort dettur þetta eða ekki.“
Talið barst þá að Keflavík sem fróðlegt verður að sjá hvernig mætir til leiks í kvöld, eftir fjögur töp í röð og umtalsverðar breytingar:
„Aðalatriðið fyrir okkur er að fylgjast með Keflvíkingum. Það eru breytingar þarna. Nýr þjálfari, Siggi Ingimundar, sem þjálfaði okkur báða í landsliðinu. Við erum búnir að eyða öllum vetrinum í að tala um að það vanti ákveðna hluti í Keflavík. Að það vanti orku, ábyrgð, harðneskju, kraft og baráttu. Allt mjög keflvískir hlutir í grunninn. Og ef það er einhver maður sem getur barið þessa hluti í þá, þá er það Siggi Ingimundar,“ sagði Pavel.
„Ef einhver getur lamið Keflavík í þetta lið þá er það Sigurður Ingimundarson. Þeir hafa verið dálítið flatir og í síðasta leik voru þeir bara ragir. Þetta var mjög ó-keflvískt. Ég ímynda mér að þar hafi menn fengið nóg. Þeir ætla ekki að loka tímabilinu svona,“ sagði Helgi en alla upphitunina má sjá hér að ofan.
Leikur Hauka og Keflavíkur er á Stöð 2 BD klukkan 19:15 í kvöld, í beinni útsendingu GAZ-manna. Leikur Tindastóls og Þórs Þ. er á Stöð 2 Sport og leikur Hattar og Stjörnunnar á Stöð 2 BD2. Allir leikirnir hefjast klukkan 19:15.