Enski boltinn

David Moyes finnur til með Arne Slot

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Moyes og Arne Slot á hliðarlínunni í leik Everton og Liverpool á Goodison Park í vikunni.
David Moyes og Arne Slot á hliðarlínunni í leik Everton og Liverpool á Goodison Park í vikunni. Getty/Robbie Jay Barratt

David Moyes, knattspyrnustjóri Everton, vorkennir kollega sínum Arne Slot hjá Liverpool eftir að sá hollenski fékk að líta rauða spjaldið í lok borgarslags Everton og Liverpool á miðvikudagskvöldið.

Michael Oliver dómari sýndi Slot enga miskunn eftir að Slot sagði eitthvað við hann þegar hann tók í hönd hans og þakkaði fyrir leikinn.

Bæði Slot og aðstoðarmaður hans fengu rauða spjaldið. Liverpool fékk á sig jöfnunarmark á áttundu mínútu í uppbótatíma og svekkelsið var mikið.

Það voru líka mikil læti eftir leik og tveir leikmenn fóru að slást.

Abdoulaye Doucouré var fórnarlamb kynþáttaníðs sem bæði félögin fordæmdu eftir leikinn.

Liverpool maðurinn Curtis Jones var mjög ósáttur með það að Doucouré fagnaði sigri fyrir framan stuðningsmenn Liverpool. Þeir slógust og fengu síðan báðir rautt spjald.

„Það er í fínu lagi með Doucouré. Ég var vonsvikinn með að hann var rekinn af velli. Félagið mun skoða það betur. Þetta var tilfinningaríkt kvöld og allir tóku þátt í því,“ sagði David Moyes. ESPN segir frá.

„Við vorum að spila á móti virkilega góðu Liverpool liði, líklega besta liði Evrópu, og við urðum því að skila okkar bestu frammistöðu,“ sagði Moyes.

„Ég finn samt til með Arne Slot því ég þekki svona frá því að ég var ungur stjóri. Ég lenti oft í svona þegar ég var yngri. Það segir mér að þetta skipti hann miklu máli og að hann vilji berjast fyrir leikmenn sína og félagið,“ sagði Moyes. Hann hefur vit á því að æða ekki í átt að dómaranum eftir svekkjandi úrslit.

„Ég var svekktur með Doucouré af því að hann spilaði svo vel í leiknum og stóð sig svo vel fyrir liðið. Hann myndi ekki gera þetta ef hann gæti valið um það núna. Það breytir ekki því að fólk hefur ekki leyfi til að svívirða þig. Ef það er raunin þá er það kolrangt,“ sagði Moyes.

Slot ræddi rauða spjaldið á blaðamannafundi sínum og baðst afsökunar á hegðun sinni. Hann sagði að tilfinningarnar hefðu hlaupið með hann í gönur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×