Erlent

Trump segir Rússa hafa öll spil á hendi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kastast hefur í kekki milli Trump og Selenskí frá því að þeir funduðu í New York síðasta haust, áður en Trump var kjörinn forseti.
Kastast hefur í kekki milli Trump og Selenskí frá því að þeir funduðu í New York síðasta haust, áður en Trump var kjörinn forseti. Getty/Alex Kent

„Ég held að Rússar vilji sjá stríðið taka enda; virkilega. Ég tel þá halda svolítið á spilunum þar sem þeir hafa tekið yfir mikið landsvæði. Þeir eru með spilin í höndunum.“

Þetta sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti í samtali við BBC um borð í Air Force One í gær, á leið frá Flórída til Washington D.C.

Þegar ýtt var á hann um það hvort hann teldi Rússa virkilega vilja frið svaraði hann játandi.

Trump kallaði Vólódímír Selenskí Úkraínuforseta tvívegis „einræðisherra“ í gær, ásakaði hann fyrir að hafa ekki boðað til kosninga í fyrra og gerði lítið úr vinsældum hans.

Þvert á það sem Trump hefur fullyrt, að Selenskí njóti aðeins stuðnings fjögurra prósenta þjóðarinnar segir BBC Verify, þar sem unnið er að því að sannreyna fullyrðingar ráðamanna, að ný könnun í þessum mánuði hafi leitt í ljós að 57 prósent Úkraínumanna treysti forsetanum.

Ráðamenn í bæði Bretlandi og Þýskalandi hafa ítrekað stuðning sinn við Selenskí í kjölfar ummæla Trump.

Gjá virðist hafa myndast milli Trump og Selenskís eftir að fyrrnefndi sagði Úkraínumenn hafa haft þrjú ár til að ganga til samninga við Rússa og lét að því liggja að þeir gætu sjálfum sér um kennt um stöðu mála.

Selenskí brást við með því að segja Trump búa í upplýsingaóreiðu en Bandaríkjaforseti brást við með því að kalla kollega sinn „einræðisherra“ og hóta honum undir rós; nú þyrfti hann að bregðast hratt við eða eiga það á hættu að missa landið sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×