Erlent

Höktir í stuðningi til Úkraínu hjá Sam­einuðu þjóðunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Antonio Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á öryggisráðstefnu í höfuðstöðvunum í Genf í Sviss í dag. 
Antonio Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á öryggisráðstefnu í höfuðstöðvunum í Genf í Sviss í dag.  AP/Salvatore Di Nolfi

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt ályktun þar sem þess er krafist að Rússar dragi herlið sitt þegar í stað frá Úkraínu. Aðeins 93 af 193 löndum greiddu atkvæði með tillögunni. AFP greinir frá.

Tillagan var sett fram af Úkraínu og Evrópusambandinu en er ekki lagalega bindandi. Tillagan var samþykkt í dag þegar slétt þrjú ár eru liðin frá innrás Rússa í Úkraínu.

Kosningaþátttakan var minni en í fyrri sambærilegum atkvæðagreiðslum. 93 þjóðir greiddu atkvæði með tillögunni, 65 sátu hjá og 18 sögðu nei. Sumar ályktanir Úkraínu hafa verið studdar af yfir 140 löndum á allsherjarþinginu.

Bandaríkin hafa reynt að fá Úkraínu til að draga ályktunartillöguna til baka, þannig að varatillaga frá Bandaríkjunum gæti náð meirihluta. Í bandaríska textanum er hins vegar ekki minnst á að Rússar hafi ráðist inn í Úkraínu og hertekið stór svæði í nágrannaríkinu.

Niðurstöður atkvæðagreiðslna á allsherjarþinginu þykja góður mælikvarði á afstöðu í heiminum til stíðsins í Úkraínu.


Tengdar fréttir

Bandaríkjastjórn neitar að kalla Rússa „árásaraðila“

Ríkisstjórn Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, stendur í vegi þess að G7 ríkin sendi út sameiginlega yfirlýsingu á þriggja ára afmæli innrásar Rússa í Úkraínu. Trump-liðar eru sagðir þvertaka fyrir að Rússar séu nefndir sem „árásaraðili“ í yfirlýsingunni en Trump hefur á undanförnum dögum haldið því fram að Úkraínumenn beri sjálfir ábyrgð á innrás Rússa.

Biður Trump-liða um að virða sannleikann

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur biðlað til ríkisstjórnar Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, að bera virðingu fyrir sannleikanum og forðast ósannan áróður varðandi það hvernig stríðið í Úkraínu hófst. Er það eftir að Trump lagði til að Úkraínumenn bæru ábyrgð á innrás Rússa og fór með ýmis önnur ósannindi um stríðið, hernaðaraðstoð handa Úkraínumönnum og annað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×