Innlent

Kjara­samningur kennara í höfn

Kolbeinn Tumi Daðason og Samúel Karl Ólason skrifa
Inga Rún Ólafsdóttir formaður samninganefndar sveitarfélaganna og Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambands Íslands fallast í faðma að lokinni undirritun.
Inga Rún Ólafsdóttir formaður samninganefndar sveitarfélaganna og Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambands Íslands fallast í faðma að lokinni undirritun. Vísir/Vilhelm

Kjarasamningur Kennarasambands Íslands við Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkið var undirritaður í húsakynnum ríkissáttasemjara á tólfta tímanum í kvöld. Samningurinn er mjög svipaður þeim sem sveitarfélögin höfnuðu á föstudag.

Það var á ellefta tímanum í kvöld sem Vísir greindi frá því að líkur væru á því að vöfflulykt færi að streyma úr Borgartúninu. Ríkissáttasemjari hafði boðað samningsaðila til fundar klukkan 15 í dag eftir að hafa leyft báðum aðilum að hvíla sig eftir vonbrigði síðasta föstudag. Þá samþykktu kennarar innanhússtillögu sáttasemjara en sveitarfélögin höfnuðu.

Léttir á lokametrunum, samningur í höfn.Vísir/Vilhelm

Með samningnum sem nú hefur verið undirritaður er öllum yfirstandandi og fyrirhuguðum vinnustöðvunum í skólum aflýst. Deilu sem staðið hefur í á fimmta mánuð er lokið með þeim fyrirvara að kennarar samþykki samninginn í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna.

Formenn kennarafélagannan skrifa undir samningana.vísir/vilhelm

Samningurinn er til fjögurra ára og hljóðar upp á 24,5 prósenta hækkun launa á samningstímanum. Nítján mánaða uppsagnarákvæði er í samningum en auk þess hefur verið samþykkt að koma á fót sérstakri forsendunefnd til að auka líkur á að samningurinn verði uppfylltur og minnka líkur á að honum verði sagt upp. Nefndin á að hjálpa til við að greiða úr deilum sem geta komið upp á samningstímanum.

Ástráður ríkissáttasemjari gæðir sér á langþráði vöfflu.Vísir/Vilhelm

Innáborgun til kennara hljóðar upp á átta prósent sem er sama hlutfall og var í innanhússtillögunni fyrir helgi að sögn Ingu Rúnar Ólafsdóttur, formanns samninganefndar sveitarfélaganna.

Fimm mánaða deila

Það var í október sem fyrstu atkvæðagreiðslur um verkfallsaðgerðir fóru fram. Boðað var til verkfalls í átta skólum sem virtust valdir af handahófi. Það hefur verið eitt af þeim atriðum sem farið hafa öfugt ofan í foreldra barna í þeim skólum þar sem verkföll hafa skollið á. Umboðsmaður barna komst að þeirri niðurstöðu að um mismunun væri að ræða. 

Inga Rún skrifar undir fyrir hönd samninganefndar sveitarfélaganna.Vísir/Vilhelm

Í desember náðist samkomulag hjá sáttasemjara um að fresta verkfallsaðgerðum fram í byrjun febrúar. Góður gangur væri í viðræðum og líklegt að viðræður næstu vikurnar myndu leiða til samninga. Innanhússtillaga sáttasemjara í janúar hugaðist Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ríkinu en ekki kennurum sem boðuðu aftur til verkfalls.

Deilur kennara við sveitarfélögin rötuðu endurtekið fyrir dómstóla sem lauk með því á nýju ári að aðgerðirnar voru úrskurðaðar ólöglegar.

Frá Karphúsinu í kvöld.Vísir/Vilhelm

Fimm framhaldsskólar og einn tónlistarskóli fóru í verkfall fyrir helgi. Þá voru yfirvofandi verkföll í öllum leikskólum í Kópavogi og víðar. 

Ýmislegt benti til þess að samningar tækjust fyrir helgi. Kennara samþykktu innanhússtillögu sáttasemjara en stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hafnaði tilboðinu eftir tæplega sólarhrings umhugsunarfrest. Ríkið taldi ekki ástæðu til að svara tilboðinu og vísaði til þess að sveitarfélögin hefðu hafnað þeim. 

Rekstur leik- og grunnskóla er hjá sveitarfélögum en framhaldsskólar hjá ríkinu.

Samningur í höfn átta tímum síðar

Niðurstaðan á föstudag fór ekki vel í kennara sem stormuðu margir hverjir út úr skólum sínum á hádegi á föstudag. Þeir fjölmenntu á borgarstjórnarfund síðdegis á föstudag, hafa farið mikinn á samfélagsmiðlum með atvinnuleitargjörningi, kennarar í Garðabæ mótmæltu við bæjarskrifstofurnar í morgun og gjörningur var fyrirhugaður í Hafnarfirði á morgun þar sem jarðsetja átti kennarastarfið.

Vöfflulyktin er alltaf kærkomin í Karphúsinu.Vísir/vilhelm

Sáttasemjari boðaði deiluaðila á fund klukkan 15 í dag og nú átta tímum síðar er samningur í höfn. Vöfflulyktin streymir úr Karphúsinu og fólk ýmist féllst í faðma eða tókst í hendur í Borgartúninu í kvöld.

Viðbrögð samningsaðila

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar sveitarfélaganna, sagði að lokinni undirritun að tillaga sveitarfélaganna um forsendunefnd hefði skipt sköpum. Um hana hefði náðst sátt. Nefndin á að taka á atriðum á samningstímanum sem geta komið upp og minnka líkurnar á því að samningnum verði sagt upp, sem kennarar geta gert eftir nítján mánuði.

Ástráður ríkissáttasemjari fagnaði samningi en sagði mikla vinnu fyrir höndum. Deilluaðilar ætli í mikla sameiginlega vinnu, varðandi virðismat og ýmis önnur atriði sem ekki sé búið að fara yfir. Hann sagði vöffluna sína langþráða.

Þá sagði Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambands Íslands vera svakalega stoltur af kennurum í baráttunni. Hann minnti á að samningurinn væri aðeins áfangi, í raun upphafsreitur. Mikið verk væri fram undan að auka virðingu kennarastarfsins en vonandi myndu þessi tímamót hjálpa. Enn vantaði mikinn fjölda kennara til starfa. Þá væri hann mjög stoltur af því að kennarar á öllum stigum hefðu unnið að samningum saman í fyrsta skipti.

Hér að neðan má svo sjá vaktina á Vísi. Mögulega þarf að hlaða síðuna upp aftur ef hún birtist ekki strax.


Tengdar fréttir

Segir upp eftir rúma tvo áratugi í starfi: „Það virðist enginn hlusta“

Minnst sex grunnskólakennarar í Garðabæ hafa sagt starfi sínu lausu vegna stöðunnar í kjaradeilu kennara og fleiri hugsa sig um. Meðal þeirra sem hafa lagt fram uppsagnarbréf er Rakel Svansdóttir sem hefur unnið við Flataskóla í rúma tvo áratugi en hún segir starfið hafa tekið stakkaskiptum á tímabilinu.

At­burðir helgarinnar kjafts­högg fyrir kennara

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambandsins, segir að atburðarás kjaradeilunnar fyrir helgi hafi verið eins og kjaftshögg eða vatnsgusa í andlitið fyrir kennara. Hann segir kjaftæði að virðismatsvegferð kennara hafi áhrif á samninga á almennum vinnumarkaði, en hann vonar að hægt verði að klára samninga sem fyrst.

Buguðu foreldrarnir mæti þegar þeir sjá birta til

Kennari sem hefur mikla reynslu af börnum með hegðunarvanda segir skort á fjármagni og fagfólki ástæðuna fyrir því að ekki sé unnið rétt með hópinn. Stokka þurfi kerfinu upp. Tvö sveitarfélög á öllu landinu bjóði upp á úrræði fyrir börn sem glími við slíkar áskoranir en biðlistinn sé langur. Kostnaður samfélagsins verði miklu meiri vegna brotinna einstaklingar útskrifast úr grunnskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×