Körfubolti

Doncic með þrennu á móti Dallas og Lakers fólkið söng „Takk fyrir Nico“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Luka Doncic heilsar Kyrie Irving, fyrrum liðsfélaga sínum hjá Dallas Mavericks, fyrir leikinn í Los Angeles í nótt.
 Luka Doncic heilsar Kyrie Irving, fyrrum liðsfélaga sínum hjá Dallas Mavericks, fyrir leikinn í Los Angeles í nótt. Getty/Sean M. Haffey

Luka Doncic var með þrefalda tvennu í NBA deildinni í körfubolta í nótt þegar hann mætti sínu gamla félagi með Los Angeles Lakers.

Lakers vann þá 107-99 sigur á Dallas Mavericks. Þetta var í fyrsta sinn sem félögin mættust eftir að þau skiptust mjög óvænt á leikmönnum.

Skiptin komu Doncic algjörlega á óvart eins og flestum öðrum og hann hefur ekkert verið allt of sannfærandi í fyrstu leikjum sínum með Lakers.

Í nótt hitti hann vissulega ekki vel (6 af 17) en Doncic bauð upp á flotta þrennu með 19 stigum, 15 fráköstum og 12 stoðsendingum. Þetta var hans fyrsta þrenna í Lakers búningnum en sú 81. á NBA ferlinum.

LeBron James var með 16 af 27 stigum sínum í fjórða leikhluta og Lakers vann þriðja leikinn í röð og þrettánda sigurinn í síðustu sextán leikjum.

Hjá Dallas var Kyrie Irving með 35 stig og Klay Thompson skoraði 22 stig.

Anthony Davis, sem kom til Dallas í skiptunum, gat ekki spilað vegna nárameiðsla og Max Christie, sem fylgdi með í kaupunum, var með 10 stig.

Stuðningsmenn Lakers sungu „Takk fyrir Nico“ í leiknum en það var til heiðurs Nico Harrison, framkvæmdastjóra Dallas, sem öllum á óvörum var reiðubúinn að skipta Doncic.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×