Innlent

Alvotech fær ekki að byggja leik­skóla

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík og fyrrverandi borgarstjóri, Róbert Wessmann, forstjóri Alvotech, og Heiða Björg Hilmisdóttir, nýr borgarstjóri.
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík og fyrrverandi borgarstjóri, Róbert Wessmann, forstjóri Alvotech, og Heiða Björg Hilmisdóttir, nýr borgarstjóri. Vísir

Nýr borgarstjórnarmeirihluti hyggst ekki veita Alvotech leyfi til að byggja leikskóla fyrir börn starfsmanna fyrirtækisins, og segja fyrirtækjaleikskóla brjóta gegn jafnræðisreglu. Oddviti Framsóknarflokksins og fyrrverandi borgarstjóri segir „afar leitt“ að ný borgarstjórn hafi ákveðið að láta „kreddustjórnmál vinstri vængsins“ ráða för í leikskólamálum.

Leikskólamálin báru á góma í ræðu Skúla Helgasonar, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, á fundi borgarstjórnar í dag.

„Eins og allir vita í þessum sal þá eru fyrirtækjaleikskólar ekki á dagskrá þessa nýja meirihlutasamstarfs sem við kynnum hér í dag,“ segir Skúli.

Borgarlögmaður hafi fengið það hlutverk í tíð síðasta meirihluta að skilgreina samningsmarkmið og skilyrði borgaranna fyrir slíkri starfsemi, og niðurstaðan hafi verið sú að fyrirtækjaleikskólar væru frávik frá þeirri almennu reglu að börn séu tekin inn í leikskóla eftir aldursröð og passað væri upp á jafnræðisregluna.

Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir fyrirtækjaleikskóla ekki á dagskrá nýja meirihlutasamstarfsins.Vísir/Vilhelm

Kreddustjórnmál ráði för

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins og fyrrverandi borgarstjóri, segir það ekki koma á óvart að nýr meirihluti hafi ákveðið að hafna hugmyndum um vinnustaðaleikskóla, sem Framsókn hafi reynt að fá samþykktar í síðasta meirihluta, í aðsendri grein á Vísi í dag.

Hann segir leitt að meirihlutinn láti kreddustjórnmál vinstri vængsins ráða för í leikskólamálum.

„Það er hrikalega sorglegt að hafa unnið í þessu Alvotech máli frá byrjun og sjá það drepið af þeim,“ segir Einar.

Hugmyndir um leikskóla á vinnustöðum eins og á Landspítalanum eða Alvotech hafi verið langt komnar.

„Fleiri vinnustaðir hefðu án efa komið í kjölfarið. Þar hefðu börn starfsmanna og börn úr hverfum borgarinnar fengið pláss sem nú verða ekki til.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×