„Út er komin fróðleg úttekt Viðskiptaráðs á umhverfi fjölmiðla á Íslandi. Ég vildi vekja athygli þingheims og ríkisstjórnarinnar á henni og lesa það sem kemur fram í þessari úttekt með opnum hug. Staða fjölmiðla á Íslandi er sú að þeir búa við stórkostlega brenglað rekstrarumhverfi,“ sagði Snorri.
Einkareknir miðlar lepja dauðann úr skel
Vísir greindi í morgun ítarlega frá þessari úttekt Viðskiptaráðs sem sýnir þessa sérkennilega stöðu fjölmiðla.
„Ríkismiðillinn gnæfir yfir öllu, vex ár frá ári eins og púkinn á fjósbitanum á meðan einkamiðlar lepja margir dauðann úr skel. Ríkisvaldið ber mikla ábyrgð á þessu ástandi og ríkisstjórnin getur breytt miklu um stöðu Ríkisútvarpsins en það heyrist ekki mikið af slíkum áformum, ekki einu sinni í hinum víðfrægu hagræðingartillögum ríkisstjórnarinnar þótt sannarlega sé þarna tækifæri til hagræðingar,“ sagði Snorri sem áður starfaði sem blaðamaður og þekkir því vel til hvernig kaupin gerast á eyrinni.
„Auk þess legg ég til að fjölmiðlanefnd ríkisins verði lögð niður“
Snorri sagði ríkisstjórnina þó ekki alveg verklausa þegar kæmi að fjölmiðlum, hún treystir sér til að „lækka styrkina til stærstu miðlanna sem fá um 100 milljónir hvor, mbl.is og Vísir, vel að merkja vinsælli vefir en vefur Ríkisútvarpsins sem fær sextíufalda upphæð á við þessa miðla. Nú á að lækka þennan bútasaumsstyrk til Morgunblaðsins og Vísis en ekki er greint frá því hvers vegna það er gert.“
Snorri telur þetta áhugavert samhengi hlutanna og sagði að endingu velta fyrir sér því að gera eins og Cato gamli, sem endaði allar ræður á sama hátt: Að endingu legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði.
„Auk þess legg ég til að fjölmiðlanefnd ríkisins verði lögð niður,“ sagði Snorri – til að vekja athygli á fáránleika málsins.