„Þetta er svipuð staða núna og hefur verið undanfarna daga. Við erum að sjá ágæta aukningu á skjálftum við Sundhnúkagíga. Það hefur verið smá virkni við Kleifarvatn en ekkert til að kippa sér upp við,“ segir Steinunn.
Í tilkynningu Veðurstofu á þriðjudag kom fram að auknar líkur væru taldar á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi. Landris heldur áfram á svipuðum hraða og gera þarf ráð fyrir að eldgos geti hafist með skömmum fyrirvara. Líklegt er talið að kvikan komi fyrst upp á svæðinu milil Sundhnúks og Stóra-Skógfells.
Síðasta gosi lauk 9. desember en Steinunn segir ekki hægt að draga sérstakar ályktanir af svo löngu hléi milli gosa.
„Þetta er líklega lengsta tímabil sem hefur liðið á milli gosa en landris heldur áfram þannig að kvika heldur áfram að safnast undir Svartsengi og við erum bara að bíða og sjá hvað gerist.“
Er hægt að draga einhverjar ályktarnir af þessu og magni kvikunnar undir Svartsengi?
„Nei, það er bara meiri kvika búin að safnast þar fyrir heldur en fyrir síðasta gos. Það er í raun bara það sem við erum að horfa á núna.“