Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar frá því skömmu fyrir níu í morgun.
Þar segir að skömmu fyrir miðnætti hafi lögreglunni á Suðurlandi borist tilkynning um að óttast væri um karlmann á sjötugsaldri sem hafði yfirgefið heimili sitt í Þorlákshöfn fyrr um kvöldið. Lögregla hafi þegar hafi eftirgrennslan og beindist grunur fljótt að því að um frelsissviptingu að ræða.
Maðurinn fannst síðan snemma í gærmorgun utan dyra við göngustíg í Gufunesi í Reykjavík. Hann hafi verið þungt haldinn og látist skömmu eftir komu á slysadeild.
„Rannsókn málsins er skammt á veg komin og heldur áfram af fullum þunga. Alls hafa átta einstaklingar verið handteknir í þágu rannsóknarinnar en hún beinist að meintri frelsissviptingu, fjárkúgun og manndrápi. Þrír hafa verið látnir lausir,“ segir lögreglan á Suðurlandi.
Lögreglustjórinn á Suðurlandi fer með rannsókn málsins en einnig komu lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Vesturlandi auk sérsveitar ríkislögreglustjóra að henni.
Áður verið dæmd fyrir ofbeldisbrot
Einhverjir þeirra átta hafa áður verið dæmdir fyrir ljót ofbeldisbrot. Sá yngsti sem var handtekinn er 18 ára gamall en á meðal hinna handteknu er einnig þekktur dæmdur ofbeldismaður á fertugsaldri. Sá var handtekinn að lokinni eftirför lögreglu í Kópavogi síðdegis. Málið er talið tengjast fjárkúgun.
Samkvæmt heimildum er hinn látni karlmaður á sjötugsaldri og búsettur í Þorlákshöfn. Hópurinn á að hafa hitt karlmanninn í Ölfusi og gengið í skrokk á honum. Í framhaldi hafi honum verið ekið til Reykjavíkur þar sem talið er að barsmíðarnar hafi haldið áfram með þeim afleiðingum að maðurinn lést.
Fylgst er með gangi mála í vaktinni hér að neðan.
Veistu meira um málið? Sendu okkur ábendingu á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.
Ef vaktin birtist ekki hér að neðan er ráð að endurhlaða (e. refresh) síðuna.