Maður á sjötugsaldri fannst þungt haldinn á göngustíg í Gufunesi snemma í gærmorgun og lést samkvæmt tilkynningu lögreglunnar stuttu eftir komu á spítala.
Lögregla hóf leit að manninum eftir að þeim hafði verið tilkynnt að hann hefði horfið af heimili sínu á mánudagskvöld og óttast væri um hann. Samkvæmt tilkynningu grunaði lögreglu snemma að um frelsissviptingu væri að ræða.
Sjá einnig: Maður handtekinn en kona flúði í máli sem tengist andlátinu
Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að alls hafi átta verið handtekin í málinu. Fimm voru handtekin um hádegisbil í gær og svo þrjú seinni partinn eða um kvöldið. Þremur var sleppt úr haldi að skýrslutöku lokinni. Fram kemur í tilkynningu lögreglunnar að rannsókn beinist að frelsissviptingu, fjárkúgun og manndrápi.
Þrír hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald í tengslum við málið, Stefán Blackburn og nítján ára gamall karlmaður. Upplýsingar um þann þriðja liggja ekki fyrir.

Margdæmdur ofbeldismaður
Lögreglustjórinn á Suðurlandi fer með rannsókn málsins en líkt og áður hefur verið greint frá hafa lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Vesturlandi auk sérsveitar ríkislögreglustjóra einnig komið að henni.
Umfangsmikil leit fór fram í gær í Kópavogi að lokinni eftirför lögreglunnar. Einn var handtekinn í kjölfar eftirfarar og svo leitaði lögregla að konu sem var handtekin um klukkan 21.
Sjá einnig: Nokkur hinna handteknu tengjast tálbeituhópum
Einn þeirra sem hefur verið handtekinn er margdæmdur ofbeldismaður. Þá hafa einhverjir í hópnum samkvæmt heimildum fréttastofu tengsl við tálbeituhópa sem hafa starfað síðustu vikur og mánuði. Málið er þó aðeins sagt tengjast fjárkúgun.
Fylgst er með gangi mála í vaktinni hér að neðan.
Veistu meira um málið? Sendu okkur ábendingu á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.
Ef vaktin birtist ekki hér að neðan er ráð að endurhlaða (e. refresh) síðuna.