Viðskipti innlent

Skel keypti tíu prósenta hlut í Sýn

Árni Sæberg skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson er stjórnarformaður Skeljar.
Jón Ásgeir Jóhannesson er stjórnarformaður Skeljar. Vísir/Vilhelm

Skel fjárfestingarfélag hefur keypt um tíu prósenta hlut í Sýn fyrir rúmlega hálfan milljarð króna. Stærstu eigendur Skeljar seldu forvera Sýnar fjölmiðlahluta félagsins á sínum tíma og stjórnarformaðurinn, Jón Ásgeir Jóhannesson, hefur talsverða reynslu af fjölmiðlarekstri.

Þetta segir í tilkynningu til Kauphallar. Þar segir að Skel fari nú beint með 25 milljónir hluta í Sýn. Það gerir 10,05 prósent af hlutum í félaginu.

Rétt fyrir opnun markaða í gærmorgun var tilkynnt um 504 milljóna króna viðskipti með bréf í Sýn. Þá voru 22,5 milljónir hluta keyptar á genginu 22,40 krónur. Það gerir um 9,04 prósenta hluta í félaginu.

Í morgun barst Kauphöll tilkynning frá Sýn þar sem greint var frá því að Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefði selt allan 5,67 prósenta eignarhlut sinn í Sýn. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hver eða hverjir seldu Skel hin rúmu þrjú prósentin.

Gengi hlutabréfa Sýnar hafði hækkað um rúm sex prósent þegar mörkuðum var lokað síðdegis í gær. Sú þróun hefur haldið áfram í dag og gott betur. Gengið hefur hækkað um 17,8 prósent þegar þessi frétt er skrifuð.

Skel fjárfestingafélag hefur verið eitt virkasta fjárfestingafélagið á markaði hérlendis, auk þess að hafa keypt verslanakeðju í Belgíu, síðan Skeljungi var breytt í fjárfestingafélag og nafni hans í Skel fjárfestingafélag.

Stærsti hluthafi Skeljar er fjárfestingafélagið Strengur með rétt ríflega 51 prósenta hlut. Ráðandi hluthafar þess félags eru hjónin Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir ásamt hjónunum Sigurði Bollasyni og Nönnu Björg Ágústsdóttir. Aðrir helstu hluthafar eru lífeyrissjóðirnir Frjálsi og Birta.

Jón Ásgeir er sem áður segir stjórnarformaður félagsins en Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason er forstjóri þess.

Vísir er í eigu Sýnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×