Leikarar og dansarar í Leikfélagi Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu hafa boðað verkföll, sem hefjast fimmtudaginn 20. mars. Samningar hafa verið lausir í fjórtán mánuði og samningaviðræður staðið yfir síðan í haust. Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara í nóvember, þar sem síðast var fundað 5. mars síðastliðinn, þegar samninganefnd FÍL gekk út.
Formaður FÍL, Birna Hafstein, segir í samtali við fréttastofu að félagið hafa lagt sig allt fram um að ná saman við Leikfélagið og lagt til ýmislegt í viðræðunum. Engin boð hafi borist frá Leikfélaginu á móti og það ekki sýnt neinn samningsvilja.
Hún segir málið á viðkvæmu stigi og helst vilji leikarar og dansarar ná samningum áður en verkföllin skella á. Þau verða tvær helgar í mars, milli klukkan 18:30 og 23:00. Verst kemur út ný sýning um líf og störf Ladda, en sex af sjö verkfallsdögum falla á sýningardag sýningarinnar.