Keppendur voru stórhuga þegar þeir mættu til leiks. Nokkrir klæddu sig í sín fínustu spilaföt, tilbúnir að fleygja öðrum keppendum út. Andrúmsloftið var spennuþrungið, en leikið var á fjórum borðum í einu. Fyrstur til að vinna þrjú spil var kominn í næstu umferð.
„Þetta var ár sem fæðingin tók. Ég fékk þessa hugmynd í febrúar 2024 og ég er búinn að vera að þróa þetta og hugsa þetta áfram. Núna var rétti tíminn að halda þetta, þrettán mánuðum síðar,“ segir Tómas Steindórsson, skipuleggjandi mótsins.

Er þetta í fyrsta sinn sem mótið fer fram?
„Nei, mótið fór fram árið 2011 síðast á Gullöldinni. Þetta er áframhald af því og verður vonandi árlega eftir þetta.“
Ólsen Ólsen er eitt einfaldasta spilið, og fljótt á litið virðist heppnin ráða flestu. Tómas vísar því á bug. Það sé hægt að vera góður í Ólsen Ólsen.
„Það er að hugsa vel undir pressu og vera samkvæmur sjálfum sér. Svo er hægt að telja spilin. Það er fyrir lengra komna,“ segir Tómas.

Sumir keppenda voru betur undirbúnir en aðrir.
„Við tókum hitting í gær og í fyrradag. Það gekk illa á æfingum en það hefur gengið vel í dag. Það skiptir máli,“ segir Tjörvi Jónsson, einn þátttakenda.
Hvernig er maður góður í Ólsen ólsen?
„Þetta er taktík, hvort þú viljir setja strax niður eða í lokinn. Þetta er smá strategía.“

Þetta er ekki bara heppni?
„Nei, alls ekki.“
En það gat bara verið einn sigurvegari og í ár var það Gísli Örn Gíslason sem tók titilinn heim.
