Körfubolti

Ó­sam­mála um Draymond Green: „Sorrí, ég samdi ekki reglurnar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Draymond Green liggur sjaldnast á skoðunum sínum.
Draymond Green liggur sjaldnast á skoðunum sínum. ap/Benjamin Fanjoy

Tómas Steindórsson furðar sig á ummælum Draymonds Green, leikmanns Golden State Warriors, um Karl-Anthony Towns, leikmann New York Knicks, í hlaðvarpi sínu.

Green hélt því fram að Towns þyrði ekki að mæta Jimmy Butler eftir uppákomu á æfingu Minnesota Timberwolves fyrir nokkrum árum. Towns var þó fjarri góðu gamni þar sem hún var í jarðarför sama dag og leikurinn fór fram.

„Mér finnst bara enn og aftur fáránlegt að leikmenn sem eru að spila í deildinni séu líka með eitthvað podcast,“ sagði Tómas í Lögmáli leiksins sem verður sýnt klukkan 20:00 á Stöð 2 Sport 2 í kvöld.

„Ég hef alveg verið podcast-megin í lífinu og ég veit að hann er bara að segja eitthvað. Hann heyrði þetta ekkert frá einhverjum. Hann bjó þetta bara til sjálfur. Ég held að það sé alveg klárt.“

Klippa: Lögmál leiksins - Hlaðvarp Draymons Green

Leifur Steinn Árnason tók aðeins upp hanskann fyrir Green.

„KAT er alveg ævintýralega linur. Það er ekki rangt. Ég fíla þegar leikmenn reyna að komast inn í hausinn á andstæðingum sínum,“ sagði Leifur.

„Gerðu það innan vallar, ekki í einhverju podcasti sem þú ert með,“ sagði Tómas.

Kjartan Atli Kjartansson spurði Leif hvort Green bæri enga ábyrgð á orðum sínum og hvort leikmenn mættu vera með podcast ef þeir væru nógu góðir.

„Sorrí, ég samdi ekki reglurnar en það er þannig,“ sagði Leifur.

Lögmál leiksins verður sýnt á Stöð 2 Sport 2 klukkan 20:00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×