Verkalýðsforystan sendi í dag kvörtun til Samkeppniseftirlitsins þar sem því er haldið fram að Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) og aðildarfélög þess hafi gert ólöglegan kjarasamning við Virðingu, sem sé í raun gervistéttarfélag. Virðing sé undir stjórn sjálfra veitingafyrirtækjanna og því feli kjarasamningurinn í sér samráð um launakjör sem samsvari brotum á samkeppnislögum.
Eitt alvarlegasta mál sem hefur komið upp
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir málið eitt það alvarlegasta sem hefur komið inn á borð stéttarfélagsins.
„Við höfum auðvitað áður þurft að takast á við gul stéttarfélög. Þarna er hins vegar um stærra og alvarlegra mál en áður hefur komið upp. Atvinnurekendur ákveða þarna sjálfir að stofna gerivistéttarfélag og útbúa svo í gegnum það kjarasamning við launafólk sitt sem er verri en sá sem samið var um á almennum vinnumarkaði,“ segir Sólveig.
Sólveig segir að lögmenn verkalýðsfélaganna telji um ólöglegt samráð að ræða og því hafi verið ákveðið að kvarta til Samkeppniseftirlitsins.
Engar upplýsingar um félagsmenn
Virðing stéttarfélagið sem um ræðir er samkvæmt heimasíðu opið öllum sem starfa á veitinga-og gistimarkaði. Félagið var stofnað í september á síðasta ári. Forsvarsmenn Virðingar höfnuðu viðtali við fréttastofu vegna málsins í dag en sögðu að von væri á tilkynningu frá stjórn félagsins. Ekki var unnt að fá upplýsingar um hversu félagsmenn margir eru í Virðingu.
Á heimasíðu SVEIT kemur fram að aðildarfélagar hafi samþykkt kjarasamning við Virðingu í febrúar á þessu ári. Framkvæmdastjóri hjá SVEIT vildi ekki tjá sig um málatilbúnað verkalýðsfélaganna þegar fréttastofa hafði samband í dag.
Samkeppniseftirlitið ætlar að skoða málið
Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að taka málið til skoðunar samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Það þýðir að eftirlitið mun afla sér upplýsinga frá aðilum málsins. Eftir það er ákveðið hvort tilefni sé til rannsóknar.