Franski miðillinn Le Monde hefur eftir heimildarmönnum AFP að atvikið hafi átt sér stað þann 9. mars síðastliðinn.
Maðurinn hafi lent í handahófskenndri skoðun þar sem leitað var í tölvu og síma hans. Starfsmenn flugvallarins hafi þar fundið skilaboð sem voru sögð „endurspegla hatur í garð Trump og er hægt að skilgreina sem hryðjuverk“. Tölvubúnaður mannsins, bæði persónulegur og vinnutengdur, hafi verið gerður upptækur og hann sendur aftur til Evrópu daginn eftir.
Annar heimildamaður AFP sagði að vísindamaðurinn hefðir verið sakaður um „hatursfull og samsærisleg skilaboð“.
Ráðherra Frakka ómyrkur í máli
Philippe Baptiste, háskóla- og rannsóknarmálaráðherra Frakklands, lýsti í dag yfir áhyggjum sínum vegna máls vísindamannsins, sem starfar fyrir vísindarannsóknarstofnun franska ríkisins (CNRS) og var á leið á ráðstefnu Houston þegar honum var vísað úr landi.
„Bandarísk yfirvöld gerðu greinilega þessar ráðstafanir vegna þess að sími vísindamannsins innihélt samskipti við kollega og vini þar sem hann lýsti yfir persónulegri skoðun sinni á rannsóknarstefnu ríkisstjórnar Trump,“ sagði Baptiste við Le Monde.

„Skoðanafrelsi, frjálsar rannsóknir og akademístk frelsi eru gildi sem við munum áfram styðja með stolti. Ég mun verja rétt allra franskra vísindamanna til að vera trúir þeim, meðan þeir virða lögin,“ sagði hann einnig.
Baptiste hefur verið berorður í gagnrýni sinni á ríkisstjórn Trump og Elon Musk vegna mikils niðurskurðar. Sama dag og vísindamanninum franska var meinuð innganga til Bandaríkjanna birti Baptiste bréf þar sem hann kallaði eftir því að bandarískir vísindamenn myndu flytjast búferlum til Frakklands.
Ekki liggur fyrir hvaða ráðstefnu vísindamaðurinn átti að vera viðstaddur en frá 10. til 14. mars var haldin Tungl- og pláneturáðstefna (LPSC) fyrir utan Houston.