Körfubolti

Hafa engar á­hyggjur af hugar­fari Njarðvíkinga

Siggeir Ævarsson skrifar
Dwayne Lautier missti af stórum hluta tímabilsins vegna meiðsla en hefur komið sterkur inn á lokasprettinum
Dwayne Lautier missti af stórum hluta tímabilsins vegna meiðsla en hefur komið sterkur inn á lokasprettinum Vísir/Hulda Margrét

Njarðvíkingar koma á fljúgandi siglingu inn í úrslitakeppnina eftir að hafa unnið fimm af síðustu sex leikjum sínum í deildinni. Þeir mæta Álftnesingum í fyrstu umferð í einvígi sem er enginn hægðarleikur að spá fyrir um.

Njarðvíkingum var ekki spáð góðu gengi fyrir tímabilið en blaðamenn spáðu liðinu í 9. sæti. Þeir létu þau orð sem um vind um eyru þjóta og enduðu í 3. sæti og mæta því Álftnesingum sem enduðu í því sjötta. 

Spekingar körfuboltakvölds fóru yfir þetta einvígi en Teitur Örlygsson átti í mestu vandræðum með að tala Njarðvíkinga upp eftir að hafa talað illa um þá í allan vetur að eigin sögn. 

Sævar Sævarsson hrósaði liðsheild Njarðvíkinga og þjálfaranum, Rúnari Inga Erlingssyni og vildi meina að þarna væri sennilega á ferðinni einn best „drillaða“ lið landsins. 

Njarðvíkingar koma inn í þetta einvígi með mikla úrslitakeppnissögu á bakinu en liðið hefur alls orðið Íslandsmeistari 13 sinnum og leikið 229 leiki í úrslitakeppninni meðan Álftanes er með fjóra leiki í reynslubankanum. 

Leikmenn liðsins hafa þó ýmsa fjöruna sopið og þeir Hörður Axel Vilhjálmsson og Haukur Helgi Pálsson verða að teljast ansi hungraðir í titil.

Umræðuna um þetta einvígi í heild má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Spáð í rimmu Njarðvíkur og Álftaness



Fleiri fréttir

Sjá meira


×