Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá hvernig mynd af skjálftavirkni frá því í gærmorgun teiknar að mati vísindamanna Veðurstofunnar legu kvikugangsins, sem þeir segja að sé sá stærsti til þessa frá því umbrotin hófust. Eldgosið í gær kom upp rétt við Grindavík en kvikugangurinn virðist hafa náð langleiðina í átt að Kúagerði.

Fjarlægðin frá kvikuganginum að Reykjanesbraut er um þrír kílómetrar. Fjarlægðin frá kvikuganginum í átt að Vogum er um sex kílómetrar. Það er ekki mikið þegar haft er í huga að lengstu hrauntaumarnir, sem eldgosin við Sundhnúka sendu frá sér á síðasta ári, náðu að renna sex kílómetra vegalengd vestur fyrir Grindavík á fáum klukkustundum og fjóra til fimm kílómetra til Bláa lónsins.

Ef eldgos kæmi upp á norðausturhluta kvikugangsins verður þannig að telja verulega hættu á að hraun gæti bæði tekið Suðurnesjalínu í sundur og einnig Reykjanesbraut. Þá er það áleitin spurning hvort byggð í Vogum gæti verið ógnað.

Það er einnig umhugsunarvert að það eru aðeins sex mánuðir frá því Svandís Svavarsdóttir, þáverandi innviðaráðherra, og Einar Þorsteinsson, þáverandi borgarstjóri, kynntu skýrslu starfshóps um flugvöll í Hvassahrauni. Þar var staðsetning hans sýnd annarsvegar fyrir innanlandsflugvöll og hins vegar fyrir stóran millilandaflugvöll.
Skýrsluhöfundar komust að þeirri niðurstöðu að hætta vegna hraunflæðis væri afar lítil. Ráðherrann Svandís og borgarstjórinn Einar voru bæði á því að það ætti að setja meiri fjármuni í að rannsaka flugvöll í Hvassahrauni. Núna sýnir mynd Veðurstofunnar kvikugang sem er innan við þrjá kílómetra frá flugvallarstæðinu.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: