Körfubolti

„Kominn tími fyrir þá að fara í háttinn“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
DeAndre Kane var magnaður í kvöld.
DeAndre Kane var magnaður í kvöld. Vísir/Diego

DeAndre Kane, leikmaður Grindavíkur, gat leyft sér að vera kokhraustur eftir að liðið sendi Íslandsmeistara Vals í sumarfrí í kvöld.

Kane skoraði 26 stig og tók 11 fráköst er Grindavík vann átta stiga sigur gegn Val í fjórða leik liðanna í átta liða úrslitum Bónus-deildarinnar í kvöld, 82-74. Grindvíkingar náðu þar með fram hefndum frá því í úrslitaeinvíginu á síðasta tímabili.

„Það sem gerðist í fyrra, gerðist í fyrra. Við erum ekki að hugsa um það,“ sagði Kane í viðtali við Andra Má Eggertsson í leikslok.

„Við vildum bara mæta og vinna hér í kvöld og komast áfram. Við vorum ekkert að tala um leikina í fyrra. Við einbeitum okkur bara að þessu tímabili og liðinu sem við mætum í næstu umferð.“

Hann segist spila alla leiki eins. Sama hvort mótherjinn heiti Valur eða eitthvað annað.

„Ég spila alla leiki eins og hann sé minn síðasti. Það skiptir ekki máli á móti hverjum við erum að spila. Það að þeir hafi unnið okkur í úrslitum í fyrra setti smá bensín á eldinn, en ég legg mig alltaf jafn mikið fram. Þannig er það bara.“

Grindvíkingar áttu í stökustu vandræðum í upphafi leiks og voru að elta Valsmenn nánast frá upphafi til enda. 

„Það var bara eins og það hafi verið smá stress í okkur. Við vorum að reyna við stór skot snemma leiks og að klára þetta snemma. Við vitum að leikurinn er 40 mínútur .“

„Eins og ég hef áður sagt þá er Valur með gott lið og þeir koma alltaf með áhlaup til að reyna að halda einvíginu lifandi. En mig langar að hrósa mínu liði. Leikmennirnir stóðu sig vel og þjálfarateymið lagði leikinn vel upp. Við gerðum virkilega vel í seinni hálfleik þar sem við vörðumst vel án þess að vera að brjóta á þeim. Það hjálpaði okkur að landa þessum sigri.“

Sjálfur átti Kane virkilega góðan leik fyrir Grindavík í kvöld og endaði sem stigahæsti maður vallarins með 26 stig.

„Maður þarf að hafa trú á sjálfum sér og vera harður. Svo þarf maður að vilja vinna og það er það sem ég gerði í kvöld.“

Hinn litríki Kane var svo samkvæmur sjálfum sér í leikslok er hann fagnaði fyrir framan stuðningsmenn Vals með því að leggja hendur á vanga, eins og hann væri sofandi.

„Ég þurfti að svæfa börnin. Það var kominn tími fyrir þá að fara í háttinn,“ sagði DeAndre Kane léttur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×