Aron er einn efnilegasti leikari landsins og hefur getið sér gott orð fyrir leik sinn í þáttum eins og Verbúðinni, Svörtum söndum, Ófærð og Venjulegu fólki. Hann hefur einnig komið víða við á fjölum leikhúsanna og leikið í sýningum á borð við Níu líf, Shakespeare verður ástfanginn og Emil í Kattholti, svo fátt eitt sé nefnt.
Aron er meðal fyrstu samfélagsmiðlastjarna Íslands og vakti fyrst athygli árið 2015 með eftirtektarverðum og fyndnum innslögum á Snapchat.
Í dag heldur hann úti einu vinsælasta hlaðvarpi landsins, Ólafssonum í Undralandi, ásamt félaga sínum Arnari Þór Ólafssyni, þar sem þeir ræða lífið, tilveruna og allt þar á milli.