Það var sól og blíða og líf og fjör í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum þegar fréttastofa átti leið þar um fyrr í dag. Allur gangur er á því hvort fólk ætlar að vera heima og hafa það notarlegt um páskana eða ætlar að leggja land undir fót.
Feðginin Unnsteinn, Arnaldur og Ylfa ætla að hafa kósýheit heima og fara út að leika, og hjónin Arndís og Bjarni Þór ætla að vera heima á Hvammstanga þangað sem hvorki meira né minna en átta barnabörn eru væntanleg í heimsókn. Líkt og sjá má í fréttinni hér að neðan lét sólin heldur betur sjá sig í höfuðborginni í dag.
Enn aðrir ætla að gera sér ferð út fyrir landsteinana en líkt og Vísir greindi frá í morgun var mikil örtröð á Keflavíkurflugvelli þar sem langar biðraðir mynduðust í öryggisleitinni.