Erlent

Hótar að banna er­lenda nem­endur í Harvard

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Donald Trump er forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump er forseti Bandaríkjanna. AP

Ríkisstjórn Repúblikana í Bandaríkjunum hefur hótað að banna Harvard háskólanum að taka við erlendum nemendum í nám skólans þar sem stjórn skólans neitaði að fara eftir skilyrðum stjórnarinnar. Meðal skilyrða er að tilkynna nemendur til alríkisyfirvalda sem eru andsnúnir „bandarískum gildum.“

Mikið hefur gengið á á milli Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, og stjórnar Harvard háskólans í Bandaríkjunum. Í lok mars sagðist forsetinn vera endurskoða níu milljarða dollara ríkisstyrki til Harvard, og annarra skóla, vegna gyðingaandúð á skólalóðum þeirra. Ásakanir um gyðingaandúð eru vegna mótmæla nemenda skólanna við stríð á milli Ísrael og Hamas.

Trump vildi setja skólanum ákveðin skilyrði, til að mynda áttu þau að hætta taka inn nemendur með aðferðum byggðum á jöfnuði og tilkynna alla nemendur sem væri andsnúnir „bandarískum gildum.“ Einnig átti að ráða einhvern sem alríkisstjórninni þætti þóknanlegur til þess að fara yfir námsskrár og deildir sem „kynda mest undir áreitni í garð gyðinga.“

Stjórnendur skólans neituðu að fara að skilyrðunum og því frysti ríkisstjórn repúblikana í Bandaríkjunum ríkisstyrk skólans. Hann samsvarar rúmri einni billjón íslenskra króna.

Nú hefur ríkisstjórn Trumps hótað að banna Harvard háskólanum að taka inn nemendur af erlendu bergi brotnu. Um 27 prósent nemenda skólans eru ekki frá Bandaríkjunum. Trump hefur einnig hótað því að svipta skólann skattfrelsi sínu frá alríkisskatti.

„Háskólinn mun ekki gefa upp sjálfstæði sitt eða stjórnarskrárvarin réttindi hans,“ segir Alan Garber í skilaboðum til nemenda samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins.

Fréttastofa hefur sett sig í samband við nokkra íslenska háskólanemendur í Bandaríkjunum sem ekki treysta sér til að tjá sig opinberlega um málið í ljósi stöðunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×