BBC fjalla um þetta í páskavopnahlés-vakt sinni. Vladímír Pútín Rússlandsforseti tilkynnti fyrr í dag óvænt „páskavopnahlé“ sem nær frá laugardagskvöldi í dag fram á miðnætti á morgun.
Sjá einnig: Pútín tilkynnir um „páskavopnahlé“
„Heyra má í rússnesku stórskotaliði í ýmsar áttir á fremstu víglínu, þrátt fyrir loforð Rússlandsleiðtoga um þögn,“ sagði Selenskí um árásir Rússa við BBC. Hann sagði þó að á sumum svæðum væri orðið mun hljóðlátara.
Þá hefur Selenskí ítrekað að tillögur sínar um þrjátíu daga skilyrðislaust vopnahlé „séu enn á borðum“ og að aðgerðir Úkraínu væru „samhverfar“ aðgerðum Rússa.
Oleksandr Prokudin, héraðsstjóri Kherson, greindi frá því fyrr í kvöld að Rússar hefðu ráðist á héraðið eftir upphaf vopnahlés. Að minnsta kosti þrjár loftárásir hefðu verið gerðar á héraðið og að kviknað hefði í blokk í Dniprovskyi-hverfi. Í Zaporizhia-héraði særðist maður þegar dróni hæfði bíl hans.
Saka Úkraínumenn einnig um brot
Rússar hafa einnig sakað Úkraínumenn um að „rjúfa“ vopnahléð.
Vladimir Saldo, úkraínskur ríkisstjóri sem Rússar skipuðu yfir hluta Kherson-héraðs sem þeir stjórna, sagði í Telegram-færslu að úkraínski herinn „héldi áfram að ráðast á friðsælar borgir“ í Kherson.
Saldo sagði að „á nokkrum svæðum væri þögn, engin sprengikúluskot,“ sem hann sagði merki þess að einhverjir í úkraínska hernum hefðu heyrt ákallið eftir friði og haldið í mennsku sína.
Þá sagði hann árásir úr drónum, sprengjuvörpum og ómönnuðum loftförum gert vart við sig í borgunum Aleshki, Hola Prystan og Kashkova.