Körfubolti

Warriors vann leik sem var eins og frá 1997

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jimmy Butler reyndist Golden State Warriors gríðarlega mikilvægur undir lok leiksins gegn Houston Rockets.
Jimmy Butler reyndist Golden State Warriors gríðarlega mikilvægur undir lok leiksins gegn Houston Rockets. getty/Alex Slitz

Golden State Warriors tók forystuna í einvíginu gegn Houston Rockets í 1. umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta með tíu stiga sigri, 85-95, í leik liðanna í nótt.

Jimmy Butler skoraði 25 stig í fyrsta leik sínum fyrir Golden State í úrslitakeppni. Hann skoraði sex stig á síðustu tveimur mínútum leiksins. Auk þess að skora 25 stig tók Butler sjö fráköst, gaf sex stoðsendingar og stal boltanum fimm sinnum.

„Hann hefur þessi áhrif í hverjum leik. Hann róar hlutina niður. Hann er fullur sjálfstrausts og rólegur. Hann trúir því alltaf að við munum vinna,“ sagði Steve Kerr, þjálfari Golden State, um Butler.

Kerr hefur núna stýrt liðinu til sigurs í hundrað leikjum í úrslitakeppninni. Lítið var skorað í leiknum í nótt og Kerr sagði að hann hefði verið eins og leikur frá 1997, þegar hann var sjálfur að spila.

Stephen Curry skoraði 31 stig fyrir Warriors og hitti úr tólf af nítján skotum sínum utan af velli. Alperen Sengun var stigahæstur hjá Rockets með 26 stig. Enginn annar leikmaður liðsins skoraði meira en ellefu stig.

Oklahoma City Thunder rústaði Memphis Grizzlies með 51 stigs mun, 131-80. Aaron Wiggins skoraði 21 stig fyrir OKC en sex leikmenn liðsins skoruðu tólf stig eða meira í leiknum. Ja Morant og Marvin Bagley III skoruðu sautján stig hvor fyrir Memphis sem var með átján prósent þriggja stiga nýtingu í leiknum.

Meistarar Boston Celtics lögðu Orlando Magic að velli, 103-86. Derrick White skoraði þrjátíu stig fyrir Boston og Payton Pritchard lagði nítján stig í púkkið af bekknum. Paolo Banchero skoraði 36 stig fyrir Orlando og tók ellefu fráköst.

Þá sigraði Cleveland Cavaliers Miami Heat, 121-100. Donovan Mitchell skoraði þrjátíu stig fyrir Cavs, Ty Jerome 28 og Darius Garland 27. Bam Adebayo skoraði 24 stig fyrir Heat.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×