Innlent

Lætur könnun um væntingar ekki á sig fá

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri ásamt Dóru Björt Guðjónsdóttur og Sönnu Magdalenu Mörtudóttur þegar nýr meirihluti var kynntur.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri ásamt Dóru Björt Guðjónsdóttur og Sönnu Magdalenu Mörtudóttur þegar nýr meirihluti var kynntur. Vísir/Vilhelm

Borgarstjóri segir að könnun Maskínu um væntingar til meirihlutans í borginni að mörgu leyti góð fyrir meirihlutann. Rúmur helmingur svarenda ber litlar væntingar til meirihlutans og þá sérstaklega borgarbúar austan Elliðaáa.

Samfylkingin, Píratar, Flokkur fólksins, Sósíalistaflokkurinn og Vinstri græn mynduðu nýjan meirihluta í borgarstjórn eftir að Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, sprengdi meirihlutasamstarfið við Samfylkinguna og Viðreisn í febrúar. 53 prósent svarenda í könnun Maskínu segist hafa litlar væntingar til meirihlutans og einungis fjórðungur segist hafa miklar væntingar.

Tæp 44 prósent kjósenda Flokk fólksins hafa litlar væntingar til samstarfsins en rúm 53 prósent kjósenda Samfylkingarinnar. Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri segir meirihlutann að mörgu leyti koma vel út.

„Mér finnst þessi Maskínukönnun að mörgu leyti bara mjög fín fyrir okkur. Hún sýnir að borgarbúar eru ekki mjög hrifnir af miklu róti en þau eiga eftir að sjá að við eigum eftir að framkvæma mikið og við meirihlutinn erum allavega með meira fylgi en minnihlutinn, þannig að við bara vinnum að því og höldum áfram.“

Þá er nokkur munur á afstöðu svarenda eftir því hvar þeir búa. Hátt í 58 prósent þeirra sem bjuggu austan Elliðaáa hafa litlar væntingar, borið saman við 48,5 prósent í miðborginni og Vesturbænum annars vegar og 49,7 prósent í Hlíðum, Laugardal, Háaleiti og Bústöðum. Heiða segist ekki hafa skoðun á því.

„Það eru engar nýjar fréttir. Það eru bara mismunandi hverfi og það er líka það sem er fallegt við Reykjavík. Við erum ekki öll eins.“

Það er engan bilbug á ykkur að finna?

„Nei, alls ekki. Við erum rétt að byrja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×