Körfubolti

„Erfitt að spila á móti liði sem fær þrjár villur í seinni“

Siggeir Ævarsson skrifar
Sigurður Ingimundarson er í brekku og mögulega á leið í snemmbúið sumarfrí
Sigurður Ingimundarson er í brekku og mögulega á leið í snemmbúið sumarfrí Vísir/Hulda Margrét

Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur, var hundsvekktur í leikslok þegar hans konur í Keflavík töpuðu með þremur stigum gegn Njarðvík, 73-76, og eru lentar 2-0 undir í einvígi liðanna í undanúrslitum Bónus-deildar kvenna.

Sigurður var beðinn um að reyna að greina hvað hefði farið úrskeiðis í kvöld og nefndi svo sem enga ákveðna hluti en fannst þó halla töluvert á sitt lið þegar kom að dómgæslunni.

„Leiðinlegt að tapa, það er leiðinlegt að tapa. Það fór allskonar úrskeiðis og margt hefði getað verið betra hjá okkur og fleira. Svo sem gerðum margt ágætt, jafn leikur og fleira. En það var kannski, það er erfitt að spila á móti liði sem fær þrjár villur allan seinni hálfleikinn dæmdar á sig og við komumst ekki á vítalínuna sama hvað við gerum. Ég hugsa að ekkert lið geti unnið svoleiðis.“

Keflvíkingar settu gríðarlega orku í leikinn í kvöld og náðu að þvinga fram 24 tapaða bolta hjá Njarðvíkingum. Blaðamaður upplifði leikinn þó stundum þannig að Keflvíkingar væru stundum að hlaupa fram úr sjálfum sér en Sigurður var ekki sammála.

„Það þurfa bæði lið að spila á fullu til að eiga séns og það er ekkert öðruvísi hjá þeim en mér fannst kannski vera aðeins horft á það þannig og það er náttúrulega bara alrangt og bara svolítið skrítið að einhver horfi á það þannig.“

Keflvíkingar hafa nú fengið tvö tækifæri til að finna réttu púslin til að leysa leik Njarðvíkur en Sigurður lætur engan bilbug á sér finna.

„Nú er bara þessi leikur búinn og sama hvað hefði gerst þá er næsti leikur á sunnudaginn og það er leikur sem við ætlum að vinna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×