Nóg var um að vera á sérstökum vinnudegi á Stakkavíkurvelli, heimavelli fótboltaliðs Grindavíkur, á fyrsta degi sumars í gær. Um 60 manns komu saman til að vinna að því að gera völlinn leikfæran fyrir komandi fótboltasumar. Einhugur er um að spila fótbolta í bænum.
„Það er erfitt að vera ekki heima. Það eru einhver lýsingarorð um það sem ég kem ekki upp úr mér. Það verður stórkostlegt að geta komið og sjá fótboltann rúlla hérna á grasinu í Grindavík aftur,“ segir Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur.
„Ég held það séu yfir 60 manns sem komu í sjálfboðavinnu hérna í dag að hjálpa til. Það er gríðarlegur hugur í Grindvíkingum. Þetta verður bara stórkostlegt,“ segir Haukur enn fremur um samhuginn sem sé um verkefnið.

Jarðhræringar síðustu missera hafi ekki haft áhrif á fótboltavöllinn eða aðstöðuna í kring.
„Völlurinn er bara í tipp topp lagi og stúkan líka. Íþróttamannvirkin hérna eru bara í lagi. Íþróttirnar í Grindavík lifa. Það er bara þannig.“
Öryggisyfirvöld með í ráðum
Fáa þarf að kynna fyrir nýlegri sögu Grindavíkurbæjar og þeim hamförum sem hafa riðið þar yfir. Jörð opnaðist í fótboltahúsi félagsins í stærstu jarðskjálftunum og eldgosahrina undanfarinna missera gerði síðast vart við sig í byrjun apríl-mánaðar.
Vegna þessa hafa einhverjir áhyggjur af öryggi til fótboltaiðkunnar á svæðinu.

Öll leyfi hafi hins vegar fengist fyrir því að Grindavík spili á Stakkavíkurvelli í sumar.
„Við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af því. Lögreglustjórinn í Keflavík, Almannavarnir, slökkviliðið hér, Björgunarsveitin, það eru allir á vaktinni. Við erum með rýmingaráætlun og erum með allt upp á tíu. Það er enginn sem er að fara koma hingað inn að fara að verða í einhverri hættu – það er loforð.“
Gert þetta margoft áður
En segjum að viðvörunarbjöllur fari í gang á meðan fótboltaleik stendur, hvað gerist þá?
„Þá fer af stað rýmingaráætlun. Fólki verður beint út úr bænum í rólegheitum. Það er ekkert mál. Við höfum gert þetta margoft áður, eins og í Bláa lóninu,“ segir Haukur.
Haukur kveðst þá ekki smeykur um að andstæðingar Grindavíkur í Lengjudeildinni veigri sér við komu til bæjarins.
„Nei, nei. Hér er gott að koma, hér hefur alltaf verið gott að koma og spila. Hér er tekið vel á móti öllum. Ég trúi því ekki að það vilji enginn koma hingað,“ segir Haukur að endingu.
Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.