Sport

Sonur þjálfara Falcons með ljótan hrekk

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Shedeur Sanders er skrautlegur karakter.
Shedeur Sanders er skrautlegur karakter. vísir/getty

Frægasti maðurinn í nýliðavali NFL-deildarinnar, Shedeur Sanders, átti erfiða daga í kringum nýliðavalið og ekki bætti úr skák er hann var gabbaður á ljótan hátt.

Sanders er sonur goðsagnarinnar Deion Sanders, sem spilaði bæði í NFL og MLB, og hefur ferðalag þeirra feðga í háskólaboltanum allt verið skjalfest í þáttum sem Disney+ gerði.

Er Sanders tilkynnti að hann ætlaði að gefa kost á sér í nýliðavalinu var í fyrstu talað um að hann gæti verið valinn fyrstur. Hann var alltaf í umræðunni um að vera á meðal fyrstu manna til að vera valinn.

Síðustu vikur fóru hins vegar illa. Hann þótti ekki standa sig vel í viðtölum við félögin í NFL-deildinni og sjarminn fór smám saman af honum. Svo mikið reyndar að hann var ekki valinn fyrr en númer 144 og það af Cleveland Browns.

Í millitíðinni lenti hann í því að hringt var í hann og honum sagt að New Orleans Saints ætlaði að velja sig. Það var aftur á móti hrekkur sem sonur varnarþjálfara Atlanta Falcons, Jeff Ulbrich, stóð fyrir.

Sá hefði séð símanúmer Sanders í iPad pabba síns og skrifað það niður. Hann nýtti sér það svo til þess að gabba leikstjórnandann unga. Þetta fannst fæstum fyndið og drengurinn gaf frá sér afsökunarbeiðni í gær. Falcons gerði slíkt hið sama.

NFL-deildin er að fara yfir alla verkferla vegna þessa en pabbanum verður ekki refsað.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×