Jaroslav Moskalik, undirhershöfðingi og fulltrúi í herforingjaráði Rússlands, lést þegar bílsprengja sprakk í Balashikha, úthverfi Moskvu, á föstudag. Hann var 59 ára gamall.
Rússneska alríkislögreglan segir nú að Ignat Kuzin, maður sem hún hefur í haldi vegna morðsins, hafi játað sig sekan um hryðjuverk. Hann hafi fengið greitt frá úkraínsku leyniþjónustunni fyrir að ráða Moskalik af dögum.
Þetta er annað drápið á hátt settum mönnum innan rússneska hersins á fjórum mánuðum sem rússnesk stjórnvöld saka Úkraínumenn um að bera ábyrgð á. Igor Kirillov, undirhershöfðingi, lést þegar sprengja sprakk í rafhlaupahjóli sem var lagt fyrir utan heimili hans í Moskvu í desember.
Stjórnvöld í Kænugarði hafa ekki tjáð sig um morðið á Moskalik frekar en önnur tilræði sem Rússar hafa sakað þau um að hafa staðið að baki.