Erlent

Sænskur blaða­maður dæmdur fyrir að móðga Erdogan

Kjartan Kjartansson skrifar
Recep Erdogan, forseti Tyrklands, er móðgunargjarn maður. Undir stjórn hans var sænskur blaðamaður hnepptur í fangelsi og ákærður.
Recep Erdogan, forseti Tyrklands, er móðgunargjarn maður. Undir stjórn hans var sænskur blaðamaður hnepptur í fangelsi og ákærður. Getty/Anadolu Agency

Tyrkneskur dómstóll dæmdi sænskan blaðamann í ellefu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að móðga Recep Erdogan, forseta landsins, í dag. Blaðamaðurinn á enn yfir höfði sér ákæru fyrir meint tengsl við hryðjuverksamtök.

Joakim Medin, sænskur blaðamaður sem hefur fjallað um málefni Tyrklands um árabil, var handtekinn við komuna þangað þegar hann hugðist fjalla um mótmælabylgju gegn Erdogan í síðasta mánuði. Hann var ákærður fyrir að móðga forsetann og tengsl við kúrdískan hóp sem Tyrkir skilgreina sem hryðjuverkasamtök.

Dómurinn sem Medin hlaut í dag er skilorðsbundinn. Sænska ríkisútvarpið segir að ákæran sem hann á enn yfir höfði sér um meint tengsl við hryðjuverkasamtök sé mun alvarlegri. Það gæti tekið einhverja mánuði að fá botn í það mál.

Sönnunargögnin sem voru notuð til þess að sakfella Medin í dag voru meðal annars blaðagrein sem hann skrifaði um mótmæli í Svíþjóð árið 2023 og mynd af þeim sem hann deildi á samfélagsmiðli. Þar sást meðal annars brúða í líki Erdogan sem mótmælendur hengdu upp við ráðhúsið í Stokkhólmi.

Í hryðjuverkaákærunni byggir ákæruvaldið einnig á blaðagreinum Medin um Verkamannaflokk Kúrdistan (PKK) og bók sem hann skrifaði um samtökin. Saka saksóknarar blaðamanninn um að dreifa áróðri flokksins. Lögmenn Medin segja ákæruna byggða á sandi og eiga sér pólitískar rætur.

Tyrknesk stjórnvöld töfðu aðild Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu, meðal annars vegna þess að sænsk stjórnvöld gengust ekki við kröfum þeirra um að beita sér gegn kúrdískum hópum í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×