Tilkynnt var um eld í ruslabíl við Kaplaskjólsveg í Reykjavík upp úr hádegi í dag. Einn dælubíll og einn sjúkrabíll voru sendir á staðinn upp úr klukkan hálf tvö.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu slasaðist enginn og gekk slökkvistarf greiðlega. Ólíklegt er þó að bíllinn nýtist í fleiri verkefni þar sem glussakerfi hans eyðilagðist í brunanum.
Fram kemur í dagbók lögreglu að eldurinn hafi kviknað inni í ruslagáminum, glussakerfið verið ónýtt og því hafi slökkvilið sagað gat á gáminn til að komast að eldinum.