Í samtali við fréttamann Channel 12 í morgun sagði Smotrich að Ísraelar ætluðu að hernema Gasaströndina og að þeir myndu aldrei fara aftur. Þeir ætluðu að vinna fullnaðarsigur.
Yfirvöld í Ísrael hafa samþykkt áætlun um að hernema Gasaströndina alfarið á næstu mánuðum og halda svæðinu um óákveðinn tíma. Verið er að kalla tugi þúsunda varaliðsmanna til herþjónustu sem eiga að taka þátt í hernáminu.
Smotrich sagði einnig að Ísraelar ætluðu að taka alfarið yfir stjórn mannúðaraðstoðar á Gasa og aðskilja Hamas frá íbúum svæðisins. Ísraelar vilja taka yfir dreifingu neyðarbyrgða til íbúa og í kjölfarið opna á flæði þeirra aftur inn á svæðið.
Yfirvöld í Ísrael segja að neyðarstoðin og það að dreifa henni hjálpi Hamas.
AP fréttaveitan segir vísbendingar um að Ísraelar vilji nota öryggisfyrirtæki til að dreifa birgðum um svæðið en forsvarsmenn Sameinuðu þjóðanna segjast ekki ætla að taka þátt í því. Sameinuðu þjóðirnar saka Ísraela um að ætla að nota mannúðaraðstoð sem vopn í hernaði.
Um tveir mánuðir eru síðan Ísraelar stöðvuðu flutning neyðaraðstoðar inn á Gasaströndina. Þangað berst nú ekki matur, eldsneyti eða lyf, svo eitthvað sé nefnt. Læknar og mannúðarsamtök vara við því að ástandið á svæðinu sé orðið gífurlega alvarlegt.
Sjá einnig: Ætla að hernema Gasaströndina
Times of Israel hefur eftir Miki Zohar, menningarráðherra, að þó hernámið ógnaði þeim gíslum sem Hamas-liðar halda enn á Gasa væri enginn annar kostur í stöðunni. Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra, sagði á dögunum að frelsun gíslanna væri ekki helsta markmið ríkisstjórnarinnar. Sigur gegn Hamas væri markmiðið og leiddi það til mikillar reiði meðal fjölskyldna gíslanna.
Talið er að Hamas haldi 59 manns í gíslingu en þar af eru 35 sagðir látnir.
Vill enn flytja íbúa til Jórdaníu og Egyptalands
Ísraelar hertóku Gasaströndina fyrst árið 1967 en hörfuðu þaðan árið 2005. Tveimur árum eftir það tóku Hamas-liðar völdin þar og hafa stjórnað svæðinu síðan.
Samkvæmt nýjum ætlunum Ísraela yrði innrás gerð úr norðri og myndi hún þvinga hundruð þúsunda íbúa Gasastrandarinnar til suðurs, þar sem aðstæður eru og hafa lengi verið ömurlegar.
Átökin á svæðinu og linnulausar loftárásir Ísraela hafa gert stóran hluta Gasastrandarinnar óbyggilegan og drepið þúsundir Palestínumanna. Heilbrigðisyfirvöld þar, sem stýrt er af Hamas, segja rúmlega 52 þúsund liggja í valnum.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur talað um að Bandaríkin eignist Gasaströndina og geri hana að „Rivíeru Mið-Austurlanda“. Netanjahú er sagður vilja framfylgja þeirri áætlun og flytja íbúa til Jórdaníu og Egyptalands.