Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar Maskínu um viðhorf fólks til auglýsinganna og frumvarpsins. Könnunin var lögð fyrir þjóðgátt Maskínu dagana 30. apríl til 6. maí 2025 og svarendur voru 1.765 talsins.
Þjóðin vill síður sjá norsku stórleikarana
Fyrsta spurning sneri að því hversu góðar eða slæmar svarendum þættu auglýsingar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, fyrir málstað þeirra. Auglýsingarnar hafa verið talsvert milli tannanna á fólki síðan norsku stórleikarnir Jon Øigarden og Oddgeir Thune birtust fyrst á skjám landsmanna í auglýsingahléum eftir að áform ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjaldana voru kynnt.
Samkvæmt könnuninni finnst 21 prósenti þjóðarinnar auglýsingarnar góðar fyrir málstað SFS, 13 prósentum finnst þær í meðallagi góðar og 66 prósentum finnst auglýsingarnar slæmar fyrir málstaðinn.
Átján prósent segjast vera jákvæð gagnvart auglýsingunum, 17 prósent hvorki jákvæð né neikvæð og 65 neikvæð.
Flestir hlynntir en talsvert færri hafa kynnt sér málið
Svarendur voru einnig spurðir að því hversu hlynntir eða andvígir þeir væru frumvarpi atvinnuvegaráðherra um breytingar á veiðigjöldum. 69 prósent segjast hlynnt frumvarpinu, 13 prósent í meðallagi hlynnt og átján prósent andvíg.
Loks voru svarendur spurðir hvort þeir þekki frumvarp ráðherra vel eða illa. 38 prósent segjast þekkja það vel, 34 prósent í meðallagi vel og 28 prósent illa.