Haukar virtust ætla að tryggja sér titilinn á heimavelli í gær en Krista Gló Magnúsdóttir setti niður þrist þegar 25 sekúndur voru eftir og það dugði Njarðvík á endanum til 95-93 sigurs.
„Ég er hamingjusöm. Það er að losna mikil spenna. Við þurftum þennan sigur, það var að duga að drepast, en við erum ekki búnar,“ sagði Hesseldal þegar hún mætti í settið hjá Körfuboltakvöldi strax eftir leik.
„Við trúum því virkilega að við getum náð þessu,“ sagði Hesseldal en viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan.
Hesseldal tók heil tuttugu fráköst, skoraði tólf stig og gaf fjórar stoðsendingar í leiknum. Ólöf Helga Pálsdóttir spurði hana út í það hve fersk hún hefði virst í leiknum. Að hún hefði virkað þreyttari í leik tvö í einvíginu. Hver var lykillinn að því?
„Ísböð,“ sagði sú danska og hló. „Nei í alvöru. Við erum búnar að vera í ísbaðinu bara eins og það sé sundlaug,“ bætti hún við.
Hún hrósaði líka Kristu og hinni 17 ára Huldu Maríu Agnarsdóttur sem samtals skoruðu 28 stig í gær og nýttu samtals átta af ellefu þriggja stiga skotum sínum. Mikilvægastur var þó sigurþristur Kristu í lokin:
„Ég varð mjög, mjög ánægð [þegar skot Kristu fór ofan í]. Ég er mjög stolt af bæði henni og Huldu. Öllu liðinu en sérstaklega þeim tveimur. Þær hittu vel úr þriggja stiga skotunum í kvöld og það skipti rosalegu máli fyrir okkur. Opnaði völlinn.“