Boston Celtics er ríkjandi NBA-meistari og vann 61 leik í deildarkeppninni. Það bjuggust því flestir að þeir myndu slá út New York Knicks í undanúrslitum Austurdeildarinnar.
Boston tapaði hins vegar tveimur fyrstu leikjunum sem voru báðir á heimavelli Celtics. Næstu tveir leikir fara fram í New York og vinni Knicks þá er liðið komið í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar.
Eftir tapið í fyrsta leiknum þá var Pierce svo sannfærður um það að Boston menn myndu svara í leik tvö. Þeir höfðu tapað niður tuttugu stiga forskoti í fyrsta leiknum og hitt hörmulega fyrir utan þriggja stiga línuna.
Pierce var svo viss um að Boston tæki næsta leik að hann gaf stórt loforð í beinni útsendingu.
„Ef Celtics liðið tapar leik tvö þá lofa ég ykkur því að ég mun labba heim eftir leikinn. Ég verð í sloppnum mínum, skólaus og berfættur. Veðjið húsinu ykkar á þennan leik. Það eru meiri líkur á því að fara út úr húsinu þínu og sjá risaeðlu en að Celtics tapi leik tvö,“ sagði Paul Pierce.
Boston náði reyndar aftur tuttugu stiga forskoti í leik tvö en missti það aftur niður og New York Knicks vann leikinn á endanum með einu stigi, 91-90.
Pierce fór ekkert í felur þrátt fyrir þessa hörmulegu spá sína og gekk alla leiðina heim. Hann var í sloppinum sínum og göngutúrinn tók hann átta klukkutíma.
Pierce birti myndband af sér á göngunni um miðja nótt eins og sjá má með því að fletta hér fyrir neðan.