Atriðin óku eftir lengsta túrkis dregli Eurovision-sögunnar í gær á gömlum lestarvögnum. Úr vögnunum veifuðu keppendur svo aðdáendum sem höfðu raðað sér við hlið dregilsins.
Það voru þó ekki einungis aðdáendur sem voru mættir, heldur einnig mótmælendur sem mótmæltu þátttöku Ísrael í keppninni vegna stríðsreksturs þeirra í Palestínu. Þeir veifuðu fána Palestínu og hvöttu fólk til að sniðganga Eurovision vegna þátttöku Ísrael.
France24 greinir frá því að í kjölfar mótmælanna hafi ísraelski hópurinn kvartað til EBU eftir að ungur maður dró fingur eftir hálsi sér í áttina á meðan hann horfði í átt að vagni hópsins og hrækti í kjölfarið að vagninum.
Verið er að kanna málið en enginn hefur verið handtekinn vegna málsins og ekki kemur fram hvort nokkur hafi verið handtekinn vegna mótmælanna. Um þrettán hundruð lögreglumenn voru við störf í kringum gönguna á meðan hún var í gangi og að minnsta kosti 150 einstaklingar voru stöðvaðir þegar þeir ætluðu að hindra framgang göngunnar.