Körfubolti

Harkaði af sér veikindi og Nuggets tryggðu odda­leik

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jamal Murray harkaði af sér veikindi og hjálpaði Denver Nuggets að tryggja oddaleik gegn Oklahoma City Thunder. 
Jamal Murray harkaði af sér veikindi og hjálpaði Denver Nuggets að tryggja oddaleik gegn Oklahoma City Thunder.  Matthew Stockman/Getty Images

Jamal Murray, leikstjórnandi Denver Nuggets, spilaði þrátt fyrir veikindi og hjálpaði liðinu að tryggja oddaleik gegn Oklahoma City Thunder í undanúrslitum vesturdeildar NBA, með 119-107 sigri í nótt.

Murray spilaði 42 mínútur, flestar allra leikmanna, þrátt fyrir að „finna til í eiginlega öllu“ eins og hann sagði í viðtali við ESPN eftir leik.

„Þegar leikurinn byrjar, liðið þarf á þér að halda og adrenalínið fer að flæða. Þegar þú sérð nokkur skot detta ofan í þá harkarðu bara af þér og spilar í gegnum þetta“ sagði Murray sem eyddi gærdeginum öllum með læknateyminu og vökva í æð, en endaði með 25 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar.

„Hann opnaði leikinn virkilega vel fyrir okkur, setti tóninn í upphafi, ég held að veikindin hafi ekki haft nein áhrif á hann“ sagði liðsfélagi hans Nikola Jokic, sem spilaði einnig stórvel og endaði með 29 stig, 14 fráköst og 8 stoðsendingar.

Nuggets unnu fyrsta leik seríunnar, komust síðan 2-1 yfir en lentu svo 3-2 undir. Sigurinn á heimavelli í nótt tryggði hins vegar 3-3 stöðu og oddaleik í Oklahoma á sunnudag. Þar gætu Nuggets þurft að spila án Aarons Gordon, sem haltraði meiddur af velli í fjórða leikhlutanum í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×