Körfubolti

Stjörnurnar fögnuðu og há­tíð á götum New York eftir sigur á meisturunum

Sindri Sverrisson skrifar
Íbúar New York hafa beðið lengi eftir gleðistundinni sem varð í gærkvöld þegar Knicks komust loksins aftur í úrslit austurdeildarinnar.
Íbúar New York hafa beðið lengi eftir gleðistundinni sem varð í gærkvöld þegar Knicks komust loksins aftur í úrslit austurdeildarinnar. Getty/Angelina Katsanis

New York Knicks eru komnir í úrslit austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta í fyrsta sinn í 25 ár, með því að slá út sjálfa meistara Boston Celtics. Sigurdans var stiginn á götum New York borgar í nótt og stjörnurnar fögnuðu ákaft í Madison Square Garden.

Leikararnir Timothee Chalamet, Tracy Morgan og Ben Stiller, söngvarinn Lenny Kravitz, rapparinn Bad Bunny og að sjálfsögðu leikstjórinn Spike Lee voru í hópi þeirra sem horfðu á Knicks valta yfir Celtics í gærkvöld, 119-81, og vinna þar með einvígi liðanna 5-2.

Mikill fjöldi fólks fylgdist einnig með leiknum utandyra og þar brast út gríðarlegur fögnuður enda íbúar New York beðið lengi eftir því að lið þeirra spili loksins aftur til úrslita í austurdeildinni, og svo mögulega til úrslita um NBA-meistaratitilinn ef liðinu tekst að vinna Indiana Pacers. Það einvígi hefst á miðnætti á miðvikudagskvöld.

Jalen Brunson og OG Anunoby voru atkvæðamestir hjá Knicks í gær með 23 stig hvor en alls skoruðu sex leikmenn liðsins að minnsta kosti tíu stig hver í leiknum. Liðið setti auk þess met í sinni sögu með því að vinna 38 stiga sigur í úrslitakeppni.

Mikal Bridges setti niður fjóra þrista og skoraði 22 stig, Karl-Anthony Towns skoraði 21 og Josh Hart endaði með þrefalda tvennu því hann skoraði 10 stig, tók 11 fráköst og gaf 11 stoðsendingar.

Celtics hafði misst stjörnuleikmann sinn Jayson Tatum út með slitna hásin í leik fjögur í einvíginu en náði þó að vinna leik fimm og halda sér á lífi. Í gærkvöld átti liðið hins vegar engan möguleika og var 64-37 undir í hálfleik. Jaylen Brown var stigahæstur hjá fráfarandi meisturunum með 20 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×