Erlent

For­sætis­ráð­herra Spánar vill Ísrael í bann frá Euro­vision

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Áhorfandi með fána Palestínu á æfingu í framlags Ísraels í tónleikahöllinni í Basel í vikunni.
Áhorfandi með fána Palestínu á æfingu í framlags Ísraels í tónleikahöllinni í Basel í vikunni. Getty Images/Harold Cunningham

Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, lýsti í dag yfir þeirri skoðun sinni að Ísrael ætti ekki að fá að taka þátt í Eurovision vegna hernaðaraðgerða landsins á Gasa. Hann gagnrýndi Samtök evrópskra ríkissjónvarpsstöðva (EBU) fyrir tvískinnungshátt með því að leyfa Ísrael að keppa, á meðan Rússland var útilokað eftir innrás sína í Úkraínu árið 2022.

„Við getum ekki leyft tvöfalt siðgæði, ekki einu sinni í menningu,“ sagði Sánchez og bætti við að samstaða með Palestínumönnum væri nauðsynleg vegna óréttlætis, stríðs og sprengjuárása. Ísrael ætti ekki að fá að vera með á meðan hernaði þeirra á Gasa stæði.

Ummæli Sanchez koma í kjölfar þess að Ísrael hafnaði í öðru sæti í Eurovision í Basel í Sviss um helgina þar sem söngkonan Yuval Raphael flutti lagið „New Day Will Rise“ og hlaut hæstu einkunn í símakosningu áhorfenda.

Fyrr í dag hafði spænska ríkissjónvarpið kallað eftir rannsókn á símakosningunni á Spáni. Ísrael fékk 12 stig frá Spánverjum í símakosningunni sem margir hafa sett spurningamerki við. Þá hafði spænska sjónvarpið í apríl kallað eftir umræðu um þátttöku Ísraels í keppninni. Ísrael fékk núll stig frá spænsku dómnefndinni.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri hefur sagt að Ríkisútvarpið muni sömuleiðis óska eftir upplýsingum úr símakosningunni hér á landi.

Framlag Ísraels fékk 297 stig í símakosningunni á laugardaginn, mest allra þjóða, og hafnaðií öðru sæti keppninnar á eftir Austurríki.


Tengdar fréttir

RÚV muni óska eftir upplýsingum frá EBU um símakosninguna

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segir að RÚV muni fylgjast með framvindu mála varðandi símakosninguna í Eurovision. Fjallað var um það í morgun að spænska ríkissjónvarpið hefði óskað þess að símakosningin yrði yfirfarin.

Spænska ríkis­sjón­varpið vill að síma­kosningin verði yfir­farin

Spænska ríkissjónvarpið, RTVE, hefur krafist þess að Samband evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, yfirfari spænsku símakosninguna í Eurovision. Ísrael fékk flest stig í símakosningunni á Spáni síðasta laugardag og þar með tólf stig frá spænsku þjóðinni. Fjallað er um málið á spænska miðlinum El País. Ísrael fékk engin stig frá spænsku dómnefndinni.

Ekki hissa á góðu gengi Ísrael og innsetningarmessa páfans

Stjórnmálafræðingur segist efins um pólitíska þýðingu Eurovision keppninnar, þar sem Ísrael hafnaði í öðru sæti. Aðdáandi sem sniðgekk keppnina segist hins vegar ekki hissa á góðu gengi landsins. Fjallað verður um málið í hádegisfréttum á Bylgjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×