Rússar hafa ekki staðfest fregnir um sprengingar en lokað var fyrir umferð um brúna snemma í morgun í nokkrar klukkustundir. Opnað var fyrir umferð á nýjan leik um tíuleytið að staðartíma.
Lokað aftur fyrir umferð
Fram kom hjá rússneska ríkissjónvarpinu að lokað hefði verið fyrir umferð um brúna í um það bil þrjár klukkustundir í morgun, en ekki væri hægt að staðfesta að Úkraínumenn hefðu komið ellefu hundruð kílóum af sprengjum fyrir undir brúnni, og að brúin væri í verulega slæmu ásigkomulagi.
Skömmu eftir að úkraínsk yfirvöld gáfu út yfirlýsingu vegna sprenginganna fóru að berast fregnir af því að frekari sprengingar væru að eiga sér stað.
Hvorki rússnesk né úkraínsk yfirvöld hafa staðfest þær fregnir, en lokað var fyrir umferð um brúna á nýjan leik um fjögurleytið að staðartíma.
Í yfirlýsingu úkraínskra yfirvalda segir að árásin hafi verið skipulögð í marga mánuði. Þar segir að árásin hafi skilið brúna eftir í slæmu ásigkomulagi, svokölluðu neyðarástandi.
Með yfirlýsingunni birtu þau myndband sem sýnir sprengjuárásina sem á að hafa átt sér stað.

Þriðja árásin síðan stríðið hófst
Brúin sem um ræðir heitir Kerch-brúin og var byggð eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014. Brúin var fullkláruð og tekin í notkun 2018 við mikinn fögnuð rússneskra yfirvalda.
Úkraínumenn sem líta á Krímskaga sem hluta af Úkraínu segja að brúin sé kolólögleg.
Úkraínumenn hafa tvisvar gert atlögu að brúnni eftir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022. Fyrst árið 2022 þegar þeir sprengdu vörubíl og hluti brúarinnar var eyðilagður.
Önnur árás var gerð í júlí 2023 þegar tveir létust við sprengingar á brúnni.