Fatavöruverslunin Andrá Reykjavík birti í dag myndir af sérsaumaðri dragt sem íslensku landsliðskonurnar munu klæðast á EM í Sviss. Fötin eru hönnuð af Steinunni Hrólfsdóttur, fyrir Andrá Reykjavík.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, einn af lykilmönnum íslenska landsliðsins, sat fyrir á myndum í nýju dragtinni sem sjá má hér að neðan.
Það kom í ljós síðastliðinn föstudag hvaða 23 leikmenn munu klæðast dragtinni á EM, þegar Þorsteinn Halldórsson tilkynnti EM-hópinn sinn.
Hópurinn kemur saman í Serbíu í aðdraganda mótsins og mætir þar Serbum í vináttulandsleik föstudaginn 27. júní. Þaðan verður svo ferðast til Sviss.
Tvær vikur eru í að EM hefjist og mun Ísland þar mæta Finnlandi í fyrsta leik, 2. júlí, í Thun. Ísland mætir svo heimaliði Svisslendinga 6. júlí og loks Noregi 10. júlí í lokaumferð riðlakeppninnar. Tvö efstu liðin komast áfram í 8-liða úrslit.
Innan vallar verða stelpurnar okkar áfram í búningum frá Puma en ný, hvít varatreyja var hönnuð sérstaklega fyrir mótið. Hönnuðir Puma sóttu þar innblástur í hreyfingar Norðurljósanna og flæði jökuláa Íslands.
Evrópumótið í Sviss verður fimmta mótið í röð sem Ísland spilar á. Liðið hefur einu sinni komist upp úr sínum riðli, þegar það endaði í 8. sæti á EM í Svíþjóð árið 2013.