Þetta sagði ráðherrann þegar hann heimsótti sjúkrahús í Ísrael sem varð fyrir eldflaug frá Íran í nótt. Þar fór Katz hörðum orðum um Khamenei.
„Einræðisherra eins og Khamenei, sem stýrir ríki eins og Íran og hefur gert útrýmingu Ísrael að yfirlýstu markmiði sínu, þetta hræðilega markmið um eyðileggingu Ísrael, getur ekki verið leyft að vera til,“ sagði Katz, samkvæmt frétt Times of Israel og frétt Al Jazeera.
Hann sagði Khamenei hafa um árabil beitt Íran gegn Ísrael og það jafnvel á kostnað þegna sinna.
„Í dag sjáum við sönnun þess að hann hafi persónulega fyrirskipað árás á sjúkrahús og íbúðarhús,“ sagði Katz. Þetta sagði hann til sönnunar þess að Khamenei vildi eyða Ísrael.
Sjá einnig: Tugir særðir í Ísrael eftir árás Írana á spítala
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sagður hafa sagt ráðamönnum í Ísrael að hann vildi ekki að þeir reyndu að bana Khamenei. Fyrr í vikunni sagði Trump svo að vitað væri hvar æðstiklerkurinn væri í felum og hann væri auðvelt skotmark.
Trump sagðist þó ekki vilja „taka hann úr umferð (Drepa!)“. Að minnsta kosti ekki að svo stöddu.
Forsetinn ítrekaði þó í þeirri færslu á Truth Social að hann vildi ekki að írönskum eldflaugum yrði skotið að óbreyttum borgurum eða bandarískum hermönnum.
Segja frásganir um herstöð rangar
Ísraelski herinn dreifði í morgun yfirlýsingu á farsí um að sögusagnir frá fjölmiðlum í Íran um að Soroka sjúkrahúsið, sem varð fyrir eldflaug í nótt, hafi verið notað í hernaðarlegum tilgangi væru lygar.
Slíkar yfirlýsingar fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum og birtu íranskir meðal annars grafík sem sögð var sýna hvernig herstöð mætti finna undir sjúkrahúsinu.
Mikil hæðni einkenndi þessar yfirlýsingar, þar sem þær líkjast mörgum slíkum sem Ísraelar hafa gefið út varðandi ítrekaðar árásir þeirra á sjúkrahús á Gasaströndinni og að vígamenn Hamas-samtakanna hafi notað þau sjúkrahús.
Iranian media posted a sarcastic video claiming there was a military base under the Israeli hospital that was hit today— mocking Israel’s past justification for striking dozens of Gaza hospitals. pic.twitter.com/iGn1zNwIpJ
— Clash Report (@clashreport) June 19, 2025