Greint var frá því fyrr í kvöld að vaða sem taldi um fjörutíu grindhvalir hefði strandað við Ólafsfjarðarhöfn en fjöldi þeirra reyndist á sjöunda tug. Aldrei hefur svo stóra vöðu rekið á fjöruna í Ólafsfirði svo lengi sem elstu menn muna.
Um leið og tilkynning barst um að hvalirnir væru komnir upp á sand voru ræstar út björgunarsveitir frá Ólafsfirði, Siglufirði, Dalvík og Akureyri en ásamt þeim komu að björguninni lögreglumenn, slökkviliðsmenn íbúar Ólafsfjarðar og jafnvel ferðamenn.
Lára Stefánsdóttir situr í svæðisstjórn fyrir hönd björgunarsveitarinnar Tinds í Ólafsfirði og hún segist hafa staðið í forundran þegar henni varð ljóst að þeim hefði tekist að koma hverjum einasta hval á flot.
„Það kom mér á óvart hvað þetta gekk vel. Við áttum ekki von á að ná öllum í burtu. Við stóðum í forundran þegar þetta kláraðist og vöktuðum svo með drónum að sjá hvort þeir færu inn aftur. Þeir voru byrjaðir að reyna en við gátum rekið þá þaðan aftur,“ segir hún.
Á meðan björgunarstarfinu stóð flæddi að sem Lára segir hafa auðveldað verkið. Það hafi þó tekið á enda eru grindhvalir ekki léttir. Hún segir fólk hafa streymt að fjörunni til að aðstoða og að fengnar hefðu verið leiðbeiningar um hvernig best væri að bera sig við svona björgunarverkefni.
„Ég dáist að þessum mannskap og hvað allir fóru bara í verkefnið. Þetta var heilmikill hellingur samantekinn að halda þeim blautum þeim sem fóru efst. Ég átti aldrei von á að þeir myndu allir synda í burtu,“ segir hún.