Þetta kemur fram í tilkynningu Haga til kauphallar en árshlutareikningur félagsins var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi í gær. Helstu fréttir af starfseminni eru þær að heimsóknum viðskiptavina í dagvöruverslanir á Íslandi hafi fjölgað um tæp 6 prósent. Seldum stykkjum hafi einnig fjölgað eða um tæpt eitt prósent.
Fram kemur að seldum eldsneytislítrum hafi fækkað um 17 prósent á fyrsta ársfjórðungi. Aukin sala hafi verið í smásölu en samdráttur verið í heildarmagni, einkum vegna minni einskiptisviðskipta hjá erlendum stórnotendum.
Þá segir félagið frá góðu gengi í þróun á stafrænum lausnum og þjónustum. Til að mynda hafi nýrri netverslun Banana verið hleypt af stokkunum í apríl. Jafnframt hafi aukin áhersla verið lögð á vöruval og þægindi fyrir fjölskyldur. Barnabónus hafi verið kynnt til sögunnar sem er stuðningur Bónus við ungar barnafjölskyldur á fyrstu mánuðum eftir fæðingu.
Í samstarfi við Latabæ var stóru heilsuátaki ýtt úr vör sem miðar að því að auka neyslu barna á ferskum ávöxtum og grænmeti.
„Rekstur Haga á rekstrarárinu 2025/26 fer vel af stað og staðfestir niðurstaða fyrsta fjórðungs sterka stöðu félagsins. Vörusala samstæðunnar nam 48,1 ma. kr. og jókst um 9,2 prósent miðað við sama tímabil í fyrra. EBITDA nam 4.046 milljónum króna og hagnaður var 1.165 milljónir króna, sem er töluverð bæting á milli ára. Starfsemi gekk vel á öllum sviðum, bæði á Íslandi og í Færeyjum, en samanburður við árið á undan litast af innkomu SMS í samstæðu Haga og umtalsverðri lækkun olíuverðs á milli ára,“ er haft eftir Finni Oddssyni forstjóra Haga.