Lífið

Vissu fyrir löngu að þau vildu verja ævinni saman

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Helga Jóhanns og Magnús Darri giftu sig við einlæga og fallega athöfn á Snæfellsnesi.
Helga Jóhanns og Magnús Darri giftu sig við einlæga og fallega athöfn á Snæfellsnesi. Blik studio

„Við gerðum þetta á frekar óhefðbundinn hátt og vorum bæði mjög ánægð með þá ákvörðun,“ segir tískugyðjan nýgifta Helga Jóhannsdóttir. Helga, sem starfar sem þjónustufulltrúi hjá Snæfellsbæ, giftist ástinni sinni Magnúsi Darra Sigurðssyni skipstjóra í einstaklega fallegu sveitabrúðkaupi. Blaðamaður ræddi við hana um þennan draumadag.

Helga er fædd árið 1994 og Magnús árið 1991. Parið hefur verið saman í fimmtán ár og fluttust þau saman á Snæfellsnesið í byrjun árs 2017. Þar líður þeim ofboðslega vel og á endanum ákváðu þau því auðvitað að innsigla ástina þar.

Nýgift og gullfalleg!Blik studio

Hvenær og hvernig trúlofuðust þið?

Við trúlofuðum okkur á Canopy hótelinu í Reykjavík árið 2020. Við vorum búin að plana smá date-night þegar dóttir okkar var bara nokkurra mánaða, fengum kvöldpössun fyrir hana og áttum pantað herbergi á þessu æðislega hóteli og borð á Austur-Indíafjelaginu þetta kvöld.

Það var ótrúlega rómantískt og við áttum yndislegt kvöld saman. Svarið var mjög auðvelt JÁ, enda búin að vera saman í tíu ár þá og löngu búin að átta okkur á því að við vildum verja ævinni saman.

Hjúin höfðu lengi vitað að þau vildu eyða ævinni saman.Aðsend

Hvað voruð þið búin að vera lengi að skipuleggja stóra daginn?

Við erum búin að vera með hugann við þetta í um það bil tvö ár allavega. Við vorum mjög lengi að ákveða okkur hvernig brúðkaup við vildum halda og upphaflega planið var að gifta okkur í Fríkirkjunni í Reykjavík og halda svo veislu í nýja Sjálfstæðissalnum.

Við fengum svo einhverja bakþanka með að halda svona stórt brúðkaup og ákváðum á endanum að bjóða nánustu fjölskyldu í litla athöfn í Búðakirkju og halda litla veislu á Hótel Búðum eftir á. 

Fljótlega eftir að við tókum þessa ákvörðun ákváðum við samt að bjóða vinum í brúðkaupspartý heim til okkar helgina eftir athöfnina.

Hjónin ætluðu að halda stóra veislu í Reykjavík en ákváðu að hafa þetta frekar á persónulegum nótum á heimahögum þeirra.Blik studio

Hvernig var brúðkaupsdagurinn?

Brúðkaupsdagurinn var fullkominn! Við Magnús mættum á Hótel Búðir daginn fyrir brúðkaupið og áttum notalegar stundir saman í rólegheitunum, fórum út að borða og snemma að sofa. 

Brúðkaupsdagurinn byrjaði svo á rólegu nótunum, fórum saman í morgunmat og ég skellti mér út að hlaupa og svo um hádegisbil mætti allt nánasta fólkið okkar á hótelið.

Magnús Darri og Helga ásamt fjölskyldum þeirra.Aðsend

Hafrún vinkona kom svo til mín upp á herbergi og gerði mig fína og Aníta og Guðný bestu konurnar mínar voru með okkur. Bríet dóttir mín fékk líka fína hárgreiðslu og var hjá okkur og ömmum sínum til skiptis.

Athöfnin var í Búðakirkju sem er einn fallegasti staður á landinu og var alveg dásamleg, Laufey Brá prestur gaf okkur saman og Guðný besta vinkona mín söng svo ótrúlega fallega við undirleik Matthías Stefáns fiðluleikara og Hilmar Örn Agnarsonar organista.

Eftir athöfnina fórum við í myndatöku en Daníel hjá Blik Studios tók svo æðislegar myndir fyrir okkur.

Salurinn sem við völdum heitir Bárðarstofa, hann er á annarri hæð á Hótel Búðum og var fullkominn fyrir 25 manna veislu. Borðhald hófst fljótlega eftir að við mættum úr myndatökunni og buðum við upp á þriggja rétta máltíð og frábær vín frá Baunir og Ber.

Við sátum öll saman á einu langborði og þetta var algjörlega fullkomið kvöld með okkar nánasta fólki. Ræðurnar voru extra persónulegar og fallegar og allir náðu að spjalla saman á rólegu nótunum.

Skiptuð þið gleðinni eitthvað upp?

Já, við tókum ákvörðun að skipta þessu í tvær helgar. Við buðum fjölskyldunni í athöfn og litla veislu en helgina eftir buðum við vinum í brúðkaupspartý heim til okkar. 

Það var svo góð ákvörðun og það var svo gaman að fagna með vinum okkar á aðeins afslappaðari hátt en ef þetta hefði verið allt á einum degi.

Magnús Darri og Helga búa á Hellissandi og ákváðu að halda alvöru partý í garðinum heima með sínum bestu vinum.Aðsend

Við eigum heima á Hellissandi og margir gerðu helgarferð úr þessu og mættu á svæðið daginn áður. Við vorum orðin smá stressuð fyrir veðrinu enda búin að bjóða um hundrað manns heim til okkar og að treysta á hægt væri að nota pallinn líka.

Það var þó óþarfa stress en það var sól og blíða alla helgina og fólk var úti nánast allan tímann. Við vorum með partýtjald í garðinum frá RVK partý sem var algjörlega frábært og svo buðum við upp á hamborgara frá Búllunni sem allir voru svo ánægðir með.

Glæsilegar vinkonur, Guðný, Helga og Vala á stóra deginum.Aðsend

Voruð þið sammála í skipulaginu?

Já, við vorum mjög samstíga í þessu. Við gerðum þetta á frekar óhefðbundinn hátt og vorum bæði mjög ánægð með þá ákvörðun.

Hjónin voru mjög samstíga og sammála um að fara óhefðbundna leið í brúðkaupsplaninu.Aðsend

Hvaðan sóttuð þið innblástur?

Ég skoðaði Pinterest óhemju mikið mánuðina fyrir veislurnar og endaði á að vilja hafa allar skreytingar mjög minimalískar og einfaldar.

Ég var mjög ákveðin með hvernig blóm ég vildi hafa en hún Elísa í 4 Árstíðum gerði fallegasta brúðarvönd sem ég hef nokkru sinni séð fyrir mig, öll barmblómin og einnig blómakrans í hárið fyrir dóttur mína.

Helga sótti mikinn innblástur á Pinterest og var í skýjunum með blómvöndinn frá 4 árstíðum.Blik studio

Hvað stendur upp úr?

Athöfnin stóð upp úr, hún var svo persónuleg og náin og tónlistin svo falleg, besta vinkona mín hún Guðný söng svo fallega og við erum líka svo ánægð með að hafa fengið Matta til að spila undir á fiðluna.

Það stendur líka klárlega upp úr að hafa ákveðið að skipta þessu svona upp í tvær helgar, við náðum að fagna svo vel með fjölskyldunni sem oft verða smá út af fyrir sig í svona stórum brúðkaupum þegar margir vinir eru.

Athöfnin var persónuleg og falleg í Búðakirkju.Aðsend

Sáu einhverjir um veislustjórn og voru skemmtiatriði?

Engin veislustjórn og engin formlegheit hvorki í litlu veislunni með fjölskyldunni né í partýinu með vinunum. Vinkonur mínar sáu þó um nokkur skemmtiatriði og svo fengum við Fannar Hipsumhaps til að koma og syngja nokkur lög, það var sturlað!

Fannar í Hipsumhaps tók nokkur lög og gestir nutu sín í botn í garðinum.Aðsend

Var eitthvað sem kom ykkur á óvart?

Kom okkur ekki beint á óvart en það var svo gaman að sjá hvað maður á marga góða að sem vilja alltaf rétta fram hjálparhönd og eru tilbúnir að ganga í öll verk til að allt gangi upp. Þakklæti er okkur efst í huga.

Falleg fjölskylda á fallegum degi!Aðsend

Hvað voru margir gestir?

25 manns í litlu veislunni og um hundrað í partýinu heima.

Helga ásamt góðum vinkonum.Aðsend

Hvernig gekk að velja kjólinn? Varstu með fataskipti?

Ég var með ákveðna hugmynd um hvernig kjól mig langaði í en fann hann hvergi. Ég ákvað því að hafa samband við Sigríði Ágústu fatahönnuð og lét hún draumakjólinn minn verða að veruleika.

Ég er algjörlega í skýjunum með hann og mæli svo með að láta sauma á sig ef fólk er með einhverja ákveðna hugmynd í kollinum. 

Ég vissi frá byrjun að ég vildi ekki hefðbundinn brúðarkjól og fannst ég verða að láta stílinn minn skína í gegn. Ég valdi mér svarta KALDA skó við kjólinn og svarta tösku, til að dempa rómantíkina aðeins niður.

Helga var í sérsaumuðum brúðarkjól eftir Sigríði Ágústu, ótrúlega stílhrein og mega töff á sama tíma.Aðsend

Magnús fór svo í Suit Up og lét sérsauma á sig svört tvíhneppt jakkaföt sem hann er gríðarlega ánægður með.

Ertu með eitthvað gullið ráð fyrir verðandi hjón sem eru að skipuleggja brúðkaup?

Að halda brúðkaup sem endurspeglar ykkur sem hjón. 

Hjá okkur var þetta útkoman, lítil athöfn, engin formlegheit og bara njóta með fjölskyldu og svo seinna með vinum. Það má alveg gera þetta á óhefðbundinn hátt.

Við vorum líka rosalega ánægð með að hafa fengið foreldrafrí daginn fyrir brúðkaupið. Við fórum saman út að borða og snemma í háttinn og áttum ótrúlega rólega og góða byrjun á brúðkaupsdeginum. Krakkarnir mættu svo til okkar um hádegið og það var dásamlegt.

Ætlið þið í brúðkaupsferð?

Já við ætlum í brúðkaupsferð. Það er á planinu að fara til Japan. Við erum þó ekki búin að negla niður hvenær en vonandi vorið 2026.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.